Nauðgunarsinninn vill halda reglulega fundi: „Getur eignast nýja vini og myndað sterk tengsl“

Bandaríski rithöfundurinn og nauðgunarsinninn Roosh Vorek vonast til að fundirnir sem hann hyggst halda um allan heim á laugardaginn verði upphafið að reglulegum fundum. Hann lítur á fundina sem mikilvægan vettvang þar sem „karlar geta verið karlar“.

Stundin fjallaði um væntanlega fundi í gær en 165 fundir eru skipulagðir í 43 löndum á laugardaginn. Í bókum sínum gerir Roosh út á að kenna karlmönnum að komast yfir konur með ýmsum sálfræðibrellum. Þá hefur hann talað fyrir því að nauðganir verði lögleiddar á einkalóðum og í bók sinni um Ísland lýsti hann því hvernig hann nauðgaði rænulausri stúlku:

„Þar sem ég gekk aftur heim tók ég eftir því hversu full hún var. Í Bandaríkjunum hefði það flokkast undir nauðgun að sofa hjá henni, þar sem hún var ófær um að veita samþykki. Ég var edrú, en ég get ekki sagt að ég hafi hikað eða að mér hafi ekki verið sama.“

Óvíst er hvar fundurinn á Íslandi fer fram en ætla má að það verði á bar eða á kaffihúsi í grennd við Hallgrímskirkju, miðað við upplýsingar sem er að finna á vefsíðu Roosh. Í myndbandi um fundinn sem hann birtir á Youtube segist hann vonast til þess að þetta verði upphafið að fleiri fundum í borgum víðsvegar um heiminn að minnsta kosti tvisvar sinnum í mánuði.

Ef þú fylgist með mér ertu með einstakar skoðanir sem þú rekst ekki reglulega á í daglega lífinu. Fundirnir eru leið til að hitta aðra karla sem eru eins og þú. Þannig geturðu eignast nýja vini og myndað við þá sterk tengsl.

Svo virðist sem Roosh sé að reyna að mynda einhvers konar fjöldahreyfingu karla sem hata konur og samkynhneigða. Hann setur fundina í samhengi við flóttamannavandann í Evrópu og segir mikilvægt að til sé einskonar ættbálkur af karlmönnum sem geta leita til hvers annars ef neyðarástand skapast.

„Ég vonast til að ná að dreifa þessum hugmyndum til fleiri borga fundirnir 6. febrúar eru stórt skref í þá átt. Við efnahagshrun eða frekari flóttamannavanda verða þessir fundir meira en bara félagsleg gleðistund.“

Í myndbandinu kemur fram að sérstakir gestgjafar hafi verið fengnir til að taka á móti fólki á öllum fundunum. Sjálfur er hann ekki væntanlegur til landsins en óvíst er hver gestgjafinn á Íslandi er.

Auglýsing

læk

Instagram