Ragnheiður Sara í efsta sæti þegar heimsleikarnir í Crossfit eru hálfnaðir

Ragnheiður Sara Sigumundsdóttir er í efsta sæti í kvennaflokki á heimsleikunum í Crossfit þegar tveir keppnisdagar eru eftir. Heimsleikarnir hófust á fimmtudaginn en keppni lýkur á morgun þegar sigurvegararnir fá titlana hraustasta fólk heims. Heimsleikarnir eru í beinni útsendingu á vef keppninnar.

Fimm Íslendingar taka þátt í einstaklingskeppninni á heimsleikunum. Anní Mist Þórisdóttir er nú í fimmta sæti og Katrín Tanja Davíðsdóttir, ríkjandi heimsmeistari, er í sjötta sæti. Þá er Þuríður Erla Helgadóttir í 24. sæti. Eini íslenski karlinn í keppninni, Hvergerðingurinn Björgvin Karl Guðmundsson er í 6. sæti í karlaflokki.

Keppnisgreinarnar á heimsleikunum í Crossfit kallast Wod eða workout of the day (æfing dagsins). Fyrsta Wod dagsins í einstaklingsflokkunum hefjast í dag klukkan 14. Næsta Wod hefst svo klukkan 17 og síðasta Wod dagsins hefst klukkan 23.50.

Á sunnudeginum hefst fyrsta Wodið klukkan 14, það næsta klukkan 18.15 og síðasta Wodið hefst klukkan 21.20.

Ragnheiður Sara sagði í skilaboðum til aðdáenda sinna á Instagram eftir að hún tryggði sér sæti á heimsleikunum að hún hafi ákveðið í byrjun árs að leggja allt annað til hliðar og einbeita sér eingöngu að því að verða besti íþróttamaðurinn sem hún getur mögulega orðið. „Þetta þýddi að ég þurfti að færa fórnir, stíga út fyrir þægindarammann og gera stóra breytingar á lífi mínu,“ sagði hún í skilaboðunum.

Ég flutti frá Njarðvík til Cookeville í Tennesse og byrjaði að æfa í Crossfit Mayhem með Rich Froning og frábæra liðinu hans.

Rich Froning er einn fremsti Crossfit-íþróttamaðurinn heims en hann hefur unnið einstaklingskeppnina á heimsleikunum fjórum sinnum ásamt því að hafa unnið liðakeppnina tvisvar.

„Allt sem ég geri, allan sólarhringinn, alla daga vikunnar snýst um að bæta mig sem íþróttamaður — verða betri, hraðari og sterkari,“ segir Sara. „Hvernig ég æfi, hvað ég borða og hvernig ég sef er hluti af áætlun sem ég fylgi 100 prósent. Hún virkar og ég elska það!“

Auglýsing

læk

Instagram