Richard Branson bloggar um húðflúr Gísla

SpaceShipTwo, geimskutla auðkýfingsins Richards Branson sprakk í prufuflugi yfir Mojave-eyðimörkinni í Kaliforníu í lok október. Annar flugmaðurinn lést.

Um 700 manns hafa bókað ferð út í geim með fyrirtækinu. Á meðal þeirra eru Leonardo DiCaprio, Russell Brand, Katy Perry, vísindamaðurinn Stephen Hawking og athafnamaðurinn Gísli Gíslason.

Branson tileinkar Gísla færslu á bloggi sínu í dag en Gísli lét nýlega flúra á sig merki frá Virgin Galactic sem kallast DNA of Flight.

Takk Gísli fyrir þessa kraftmiklu yfirlýsingu um skuldbindingu þína gagnvart Virgin Galactic. Það þarf mikla sannfæringu til að fá sér húðflúr, rétt eins og að skrá sig í geimferð. Við hlökkum til að sjá þig um borð.

Branson segir að fjölmargir af þeim sem eiga pantaða ferð út í geim með Virgin Galactic hafi haft samband og ítrekað að áform þeirra séu óhögguð, þrátt fyrir slysið.

Geimskutlan sprakk skömmu eftir að flugmennirnir ræstu sérstakar eldflaugavélar SpaceShipTwo en það hafði ekki verið gert í níu mánuði. Tafir höfðu verið á prófun geimskutlunnar vegna vandræða við smíði vélanna.

Í viðtali við DV eftir að geimskutlan sprakk sagðist Gísli ætla að fylgjast með framvindu mála:

„Bara almennt eru geimferðir og allt sem þeim tengist mjög hættulegt og ég held að það sé, svona hingað til allavega í þessum fyrsta fasa, svona tíu prósent líkur á að eitthvað gerist,“ segir hann og bætir við að þetta breyti engu um fyrirætlanir hans.

Auglýsing

læk

Instagram