Rikki G var að sækja pizzu þegar keyrt var inn á veitingastaðinn í Kópavogi: „Bíllinn var í botni“

Útvarpsmaðurinn Ríkharð Óskar Guðnason, Rikki G, varð vitni að því þegar ökumaður smábíls ók inn um glugga á veitingastaðnum Ara í Kópavogi á laugardaginn. Rikki sagði frá því í útvarpsþættinum Brennslunni á FM957 í morgun.

Enginn slasaðist þegar bílnum var ekið inn á veitingastaðinn en talsverðar skemmdir urðu á glugganum og húsgögnum staðarins. Í frétt Vísis kemur fram að ökumaður bílsins ruglaðist á bremsu og bensíngjöf með fyrrgreindum afleiðingum.

„Rosalegt sem gerðist síðasta laugardag,“ sagði Rikki í þættinum. Hann var að sækja pizzu á staðinn, var kominn með hana í hendurnar og á leiðinni út þegar hann heyrði mikil læti.

Ég er að fara út með pizzuna þegar Nissan Micra kemur í gegnum staðinn. Ég er ekki að djóka; ég hélt fyrst að það hefði verið kastað sprengju inn á staðinn. Á milljón, er ekki að tala um að hann rétt lulli inn. Bíllinn var í botni.

Rikki sagði að bíllinn hafi verið fastur og bensíngjöfin í botni. „Hann var kominn inn og komst ekki lengra. Eina sem vantaði þarna, var ef bíllinn hefði losnað þá hefði hann straujað staðinn komplett!“

Viðstaddir öskruðu á bílstjóra bílsins, eldri konu, að taka fótinn af bensíngjöfinni sem hún gerði þegar hún rankaði við sér, að sögn Rikka. „Það óhugnanlegasta í þessu er að ef barn hefði verið að leika sér þarna í horninu þá hefði það fengið öll glerbrotinn og bílinn á sig.“

Hlustaðu á dramatíska lýsingu Rikka hér fyrir neðan

Auglýsing

læk

Instagram