Rithöfundur spilar handbolta í Lundúnum

Rithöfundurinn Halldór Armand sendi nýlega frá sér bókina Drón. Halldór býr í Lundúnum og spilar þar íþrótt sem hefur hingað til ekki átt upp á pallborðið hjá Bretum: Handbolta.

„Ég æfði handbolta hérna áður fyrr og var í helvíti góðu Valsliði í yngri flokkunum,“ segir Halldór. „Var samt aldrei meira en bara þokkalega frambærilegur leikmaður. En ég var samt í liði með mönnum sem eru atvinnumenn í handbolta í dag svo ég kann þetta alveg. Hafði ekki snert handbolta í 10 ár fyrr en um daginn. Liðið heitir The Islington Handball Club og er í raun á vegum Arsenal. Þannig fáum við aðstöðu og þess háttar.“

Halldór segir ástæðuna fyrir því að handbolti sé ört vaxandi í Bretlandi sé sú að fyrir Ólympíuleikana í Lundúnum var búið til lið úr engu, sem vakti mikla athygli fjölmiðla.

Leikir breska handboltaliðsins voru þéttsetnir þó þeir gætu náttúrulega ekki rassgat. Síðan þá eru lið að spretta upp út um allt land og núna eru byrjaðar deildir á landsvísu. Það merkilega er að þetta er allt saman tekið mjög alvarlega þó svo að gæði leiksins séu afskaplega misjöfn. Byrjunarliðsmenn í öllum liðum eru eiginlega allt saman leikmenn frá meginlandinu og Skandinavíu. Svo á bekknum eru kannski 10 Bretar sem vita varla hvort þeir eru örv- eða rétthentir. Geta bókstaflega ekki neitt en viljinn vegur upp skortinn.

Halldór sendi frá sér fyrstu bókina sína,Vince Vaughn í skýjunum, í fyrra. Nýja bókin Drón er skáldsaga sem fjallar um samtímann og reykvíska/vestræna dægurmenningu.

„Ég hef lengi verið heillaður af pælingunni um drón og þótt þau vera að mörgu leyti mjög sterkt tákn um nýja tíma og nýja öld. Fjarstýrð. Mannlaus. Fljúgandi tölvur beisikklí. Með eldflaugar. En að miklu leyti er þetta líka óður til reykvísku bæjarvinnunnar og Kringlunnar og svona,“ segir Halldór.

„Aðalpersónan er 17 ára stelpa sem er efnilegasta fótboltakona landsins. Hana fer að gruna að leyndardómsfullar drónaárásir út um allan heim tengist einhvern veginn líkama hennar. Eina manneskjan sem getur hjálpað henni er amma hennar í London sem hún þekkir ekki neitt. Amman hefur á seinni árum breyst í alþjóðlegan hugsuð — smá Zizek í henni, hugsuður/poppgoð/skemmtikraftur. Atburðir bókarinnar leiða þær tvær svo saman.“

Bókin er að hluta skrifuð í Kringlunni sem Halldór segir að sé svakalega notaleg verslunarmiðstöð.

„Og það svífur einhver andi þar yfir sem fyrirfinnst t.d. ekki í Smáralind. Samt virðist voða vinsælt að hate-a á slíka staði. En það á reyndar við um flesta sameinandi þætti tilveru fullorðins fólks. Fólk heldur að það megi ekki fíla þá. Svona eins og stjórnmálamenn, læknabiðstofur eða umferðarteppur,“ segir Halldór.

„Allavega, ég bjó þar í grenndinni þegar ég var að klára lagadeild og skrifaði eiginlega alla meistararitgerðina mína um sjálfsvarnarrétt ríkja á Kaffitári fyrir framan Hagkaup. Það er eitthvað trúarlegt við Kringluna, mig grunar að það tengist rúllustigunum, hvernig fólkið svífur upp og niður fyrir framan mann, skimar í kringum sig. Það fara jafnmargir upp og fara niður. Lyftutónlistin. Brosandi afgreiðslufólk. Sölumenn.

Þetta er eins og ein stór metafóra um náið samband himnaríkis og helvítis og þess vegna ekki slæmur staður fyrir fólk í skapandi hugleiðingum, enda er allt það ferli í senn þjáning og sæla.“

Fylgdu Nútímanum á Facebook og þú missir ekki af neinu.

Auglýsing

læk

Instagram