Sækja ekki um spennandi starf vegna barnanna: „Ég hef aldrei heyrt strákana segja þetta“

Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Símanum, segir að konur hiki oft við að sækja um spennandi starf þar sem þeim finnist þær bera svo mikla ábyrgð á heimilinu og gagnvart börnunum. Hún segist aldrei hafa heyrt karlmennina segja slíkt hið sama.

Birna er ein þeirra sem rætt er við í bókinni Forystuþjóð sem kemur út á fimmtudaginn. Bókin er viðtalsbók um stöðu jafnréttismála á Íslandi árið 2017 en þar deila valinkunnir Íslendingar skoðunum sínum, áskorunum og árangri í jafnréttismálum. Edda Hermannsdóttir og Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir skrifa bókina.

Sjá einnig: Una Torfadóttir segir að kennarar hafi reynt að þagga niður í henni: „Þú átt að vita betur“

„Ég hef miklu oftar heyrt það hjá stelpunum í kringum mig þegar að eitthvað spennandi starf er í boði og það á að fara að sækja um. Að þær treysta sér ekki til þess. Og útskýringarnar eru ekki að þær hafi ekki hæfnina eða reynsluna, heldur finnst þeim þær bera svo mikla ábyrgð á heimilinu og gagnvart börnunum. Ég hef aldrei heyrt strákana segja þetta. Og ég held stundum að við sköpum okkar eigin hindranir,“ segir Birna.

Henni finnst ekki fórn gagnvart fjölskyldunni að vilja ná árangri í vinnu og vilja sækja fram.

„Við deilum öllu jafnt í uppeldi og heimilisrekstri, hjónin. Og ég held að það sé síst af öllu fórn, miklu frekar eitthvað sem allir græða á,“ segir hún.

Auglýsing

læk

Instagram