Sendur úr landi þrátt fyrir að vera með dvalarleyfi, samstarfsfólk hans mótmælir

Hælisleitandinn Christian Boadi frá Ghana verður sendur úr landi í fyrramálið þrátt fyrir að vera með gilt atvinnu- og dvalarleyfi hér á landi. Christian verður sendur til Ítalíu þar sem hann leitaði fyrst eftir að fá hæli.

Christian starfar á veitingstaðnum Lækjarbrekku. Samstarfsfólk hans ætlar að mæta að heimili hans á Bollagötu 4 í Reykjavík klukkan fjögur í nótt og sýna í verki að þeim sé ekki sama um hann þegar hann verður fjarlægður af hemili sínu gegn vilja sínum.

„Við erum öll hneyksluð á virðingarleysi Útlendingastofnunar við meðferð þessa máls, og þá lítilsvirðingu sem yfirvöld sýna í hans garð með þessum aðgerðum,“ segir í viðburðinum á Facebook.

Þrír hælisleitendur verða handteknir og sendir úr landi í nótt þrátt fyrir að vera með atvinnu- og dvalarleyfi þar til í júní. Þetta er gert á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar sem heimilar íslenskum stjórnvöldum að senda hælisleitendur til baka til þess ríkis sem var þeirra fyrsti viðkomustaður í Evrópu.

Christian segir í samtali við Vísi að sér finnist þetta mjög skrýtið. „Þeir hringdu í mig í gær, klukkan hálf fimm, og sögðu mér að ég þyrfti að fara á morgun,“ segir hann.

Jón Tryggvi Jónsson, eigandi Lækjarbrekku, staðfestir að atvinnuleyfi Christians hafi átt að gilda til 16. júní næstkomandi. Hann segir í samtali við Stundina að Christian sé góður þjóðfélagsþegn, borgi skatta, standi sig í vinnunni og hafi farið á þrjú námskeið í íslensku.

„Ég skil ekki um hvað málið snýst? Christian er með atvinnu- og dvalarleyfi þangað til í sumar og að undanförnu hef ég verið að aðstoða hann við að fá konuna sína í heimsókn í tvær vikur. Núna, eftir rúm þrjú ár á Íslandi, þá á að taka allt þetta frá honum og henda honum í óvissuna á Ítalíu. Síðast þegar hann var þar þá bjó hann á götunni. Hann átti ekki neitt. Hér á Íslandi á hann vini, samstarfsfélaga sem þykir vænt um hann og vinnuveitanda sem vill ekki að hann verði fluttur úr landi. Maður bara skilur þetta ekki.“

Smelltu hér til að kynna þér mótmæli samstarfsfólks Christians.

Auglýsing

læk

Instagram