Davíð Þór fjallaði um látna hælisleitandann frá Makedóníu í prédikun: „Á endanum varð örvænting hans algjör“

Sr. Davíð Þór Jónsson, prestur í Laugarneskirkju, segir að íslensk samfélag beri ábyrgð á aðstæðum hælisleitanda frá Makedóníu sem lést eftir að hafa borið eld að sér í byrjun desember.

Þetta sagði hann í messu í kirkjunni í morgun. RÚV greinir frá.

Líkt og komið hefur fram í fréttum bar maðurinn eld að sér í húsnæði Útlendingastofnunar í Víðinesi 7. desember. Maðurinn var á þrítugsaldri.

Útlendingastofnun hafði synjað umsókn hans um hæli hér á landi en umsóknin var enn til umfjöllunar hjá kærunefnd útlendingamála.

Davíð Þór fjallaði um mál mannsins í prédikun sinni í morgun. Hann sagði að það væri alvarlegt að saka einhvern um að hafa mannslíf á samviskunni og það vildi hann forðast. Sá sem tæki líf sitt bæri einn ábyrgð á þeim verknaði.

„En aðstæður þessa ógæfusama ungmennis voru á ábyrgð íslensks samfélags. Þeim sem til þekkja ber saman um að hann hafi sýnt af sér einkenni alvarlegs þunglyndis, örvæntingar og vonleysis um alllanga hríð, þannig að í raun hafi verið fyrirsjáanlegt að þetta gæti ekki endað öðruvísi en voðalega ef ekki væri gripið í taumana. Enda fór það þannig. Ekki var gripið í taumana, jafnvel þótt vinir hans hafi farið þess á leit við stjórnvöld að það yrði gert,“ sagði Davíð Þór.

Hann sagði einnig að á endanum hafi örvænting mannsins verið algjör og hann hafi stytt sér aldur með þessum hroðalega hætti.

„Ég ætla ekki að fullyrða að hann hefði átt að fá landvistarleyfi. Ég veit ekkert um það. En ég ætla að fullyrða að hann hefði átt að fá þá aðstoð sem hann þurfti til að ráða fram úr sálarangist sinni. Og við berum ábyrgð á því að svo var ekki,“ sagði Davíð Þór einnig í prédikun sinni. 

Auglýsing

læk

Instagram