Síminn með þjófavörn á þáttunum um Stellu Blómkvist til að verjast ólöglegri dreifingu

Síminn hefur hannað rafræna þjófavörn til að sporna gegn ólöglegri dreifingu á glænýjum þætti Stellu Blómkvist úr sjónvarpsþjónustu sinni. Með vörninni má sjá hjá hvaða áskrifanda þættinum var halað niður komi til þess. Þessi þjófavörn er íslensk hönnun og ekki vitað til þess að sambærileg tækni hafi áður verið nýtt til að vernda höfundarvarið efni.

„Þættirnir um lögfræðinginn Stellu eru ein stærsta framleiðslan á innlendum sjónvarpsmarkaði  þennan sjónvarpsvetur. Þeir verða sex og aðeins sýndir í efnisveitunni Sjónvarpi Símans Premium fyrst um sinn. Við grípum því til þess ráðs að verjast ólöglegri dreifingu með þessum hætti því mikilvægt er að verja þessa stóru fjárfestingu svo við getum áfram tekið þátt í að framleiða vandað íslenskt efni á sanngjörnu verði fyrir viðskiptavini okkar,“ segir Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri afþreyingamiðla og sölu Símans.

Magnús segir mikilvægt að viðskiptavinir séu upplýstir um vörnina á þáttunum þótt hún hafi engin áhrif á upplifun þeirra. „Áhorfendur munu hvorki sjá né finna fyrir þessari vörn okkar og grípum við einungis til þessara upplýsinga ef við sjáum þáttinn dúkka upp á þekktum, ólöglegum niðurhalssíðum. Þá höfum við færi á að grípa til viðeigandi ráðstafana til að takmarka tjónið sem viðskiptavinir okkar og Síminn verða fyrir.“

Magnús segir þessa tækninýjung vonandi hafa letjandi áhrif á þá sem stunda ólöglegt niðurhal. „Við getum rakið hverja efnispöntun nákvæmlega út frá myndlyklum en gerum það þó aðeins vakni grunur um ólöglega dreifingu án þess að vega að persónuvernd viðskiptavina. Sem betur fer má reikna með að þetta snerti afar fáa enda aðgangur að þessu sjónvarpsefni góður,“ segir hann.

Þættirnir um Stellu Blómkvist koma allir á sama tíma inn í Sjónvarp Símans Premium þann 24. nóvember næstkomandi.

Auglýsing

læk

Instagram