Slökkviliðsmenn fara í hot jóga í reykköfunarbúnaði: „Svitnar við það eitt að labba í þessum göllum“

Starfsmenn Slökkviliðs Akureyrar ætla í byrjun næstu viku að fara í hot jóga í reykköfunarbúnaði. Fyrir þau sem ekki vita þá er hot jóga ákveðin samsetning af jógastöðum sem gerðar eru í heitum sal. Viðburðurinn er liður í söfnunarátaki sem slökkviliðið stendur fyrir.

Hörður Halldórsson, slökkviliðsmaður á Akureyri, er einn af þeim sem standa fyrir viðburðinum en hann segir að þó svo að hann hafi prófað hot jóga þá reikni hann með að þetta verði töluvert erfiðara. „Maður svitnar nú bara við það eitt að labba í þessum göllum svo þetta verður ögrandi fyrir okkur,“ segir Hörður í samtali við Nútímann.

Viðburðurinn fer fram í líkamsræktarstöðinni Átaki á Akureyri og er opinn öllum en markmiðið er að safna peningum með áheitum fyrir góðgerðasamtökin, Hollvini SAk. 

Samtökin hafa verið að safna fyrir nýrri ferðafóstru en hún gerir mönnum kleift að flytja veika nýbura og fyrirbura í sjúkrabílum, flugvélum og þyrlum og veita fullkomna gjörgæslumeðferð og vöktun meðan á flutningi stendur. „Svona búnaður kostar 22 milljónir og er söfnun Hollvina Sak langt komin, okkur langaði bara aðeins að hjálpa til,“segir Hörður að lokum.
Auglýsing

læk

Instagram