Spilar fótbolta í krabbameinsmeðferð

„Mér var sagt áður en ég byrjaði í lyfjameðferðinni að ég yrði heppin ef ég gæti æft og ég yrði örugglega að hætta að spila strax. Ég hef ekki ennþá fundið neitt þannig fyrir því. Ég æfi á fullu og spila bara. Það er algjör snilld. Þrjóskan hjálpar samt örugglega til,“ segir Mist Edvardsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu og leikmaður Vals.

Mist hefur spilað og æft á fullu í sumar þrátt fyrir að hafa greinst með krabbamein í eitlum fyrr á árinu. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu.

Mist var aðeins búin að missa úr 24 mínútur í Pepsi-deildinni í sumar þegar hún fékk rautt spjald í leik á móti Þór/KA á dögunum. „Ég hafði náð að spila alla leiki þangað til að Garðar Örn tók sig til og sendi mig í bann,“ segir Mist í léttum dúr í samtali við Fréttablaðið.

Hún missti þar með af fyrsta leik sínum í síðustu umferð þegar hún tók út leikmann á móti Aftureldingu. „Mér hefur tekist að spila og æfa á fullu. Ég finn aðeins fyrir þessu þegar þetta er orðið erfiðara en ég er heppin að vera miðvörður og þurfa ekki að hlaupa eins mikið og miðjumennirnir. Ég finn helst mun á því að formið er aðeins verra,“ segir Mist. 

Á næstunni kemur í ljós hvernig lyfjameðferðin gengur. „Þetta gengur þokkalega. Ég er búin með fjórar lyfjagjafir af sextán og er að fara aftur út til Danmerkur í jáeindaskönnun númer tvö sem er fyrsta myndataka eftir að ég byrjaði í lyfjagjöfinni. Ég fer í það í næstu viku og þá kemur í ljós hver staðan er á þessu því þá fær maður að vita það svart á hvítu hvernig það gengur allt,“ segir Mist. Smelltu hér til að lesa allt viðtalið.

Auglýsing

læk

Instagram