Spurning í Gettu betur veldur usla: „Fráleitt að gefa rétt fyrir þetta svar“

Spurning sem Flensborgarskóli svaraði ekki rétt í Gettu betur í síðustu viku hefur valdið usla og heimildir Nútímans herma að fjölmargir hafi haft samband við RÚV og kvartað undan spurningunni. Sumir telja að mistök dómara hafi ráðið úrslitum í viðureigninni en því hafnar Steinþór Helgi Arnsteinsson, annar tveggja dómara keppninnar.

Lið Fjölbrautaskóla Vesturlands er komið í undanúrslit eftir sigur á liði Flensborgar með 24 stigum gegn 23 í fyrstu viðureign í 8 liða úrslitum Gettu betur. Umdeilda spurningin var eftirfarandi: Hvað eiga þessar runur sameiginlegt?

Lið Flensborgar svaraði að þær væru allar skrifaðar í einni runu á lyklaborðinu en rétt svar var að þetta væru vinsælustu lykilorðin á netinu.

Steinþór Helgi er dómari og spurningahöfundur Gettu betur ásamt Margréti Erlu Maack. Hann segir þá sem kvarta undan úrskurði dómarana hafa að einhverju leyti rétt fyrir sér en bætir við að það yrði að teygja sannleikann mjög mikið til að gefa Flensborg rétt fyrir svar sitt.

„Við dómararnir ákváðum að svarið væri ekki fullnægjandi og að ekki væri hægt að gefa rétt fyrir þetta,“ segir hann.

Í fyrsta lagi væri ekki hægt að gefa rétt fyrir að segja „Þær eru allar skrifaðar í einni runu á lyklaborði“. Svarið yrði að vera nákvæmara og segja „Þær eru allar skrifaðar í einni runu á qwerty-lyklaborði“, enda eru til margar mismunandi tegundir af lyklaborðum. Þýsku og frönsku lyklaborðin eru til dæmis ekki qwerty lyklaborð, þannig að þar er qwerty ekki runa á lyklaborði.

Steinþór útskýrir að þrjár runur af fjórum séu nánast þær sömu og sú fjórða heiti á lyklaborði. Hann segir að það hafi átt að vera frekar augljóst að þetta væru runur á lyklaborði enda var ekki spurt hvar það mætti finna þessar runur.

„Við vorum aðeins gefa menntaskólanemum meiri kredit en þetta. Þau eru einfaldlega betri en það að við værum að spyrja svona gríðarlega augljósra spurninga,“ segir hann.

„Ekki ósvipað og spurt væri: Hvaða eiga Sviss, Ísland, Lichtenstein og Noregur sameiginlegt? (þau eru öll í EFTA) og gefa síðan rétt fyrir að lið myndu svara: „Þetta eru allt lönd“ eða „Það eru fjöll í öllum þessum löndum“ eða „Þau tilheyra öll Evrópu“. Öll þessi svör eru svo sem rétt en við værum að hleypa keppninni í smá vitleysu með því að gefa rétt fyrir slíkt.“

Steinþór viðurkennir að eftir á að hyggja hefði líklega frekar átt að segja: „Hvað eiga þessa lyklaborðarunur sameiginlegt?“

„En eftir sem áður tel ég það algjörlega fráleitt að gefa Flensborg rétt fyrir þetta svar, það var einfaldlega ekki fullnægjandi,“ segir hann.

Auglýsing

læk

Instagram