Súkkulaðið í heiminum er að verða búið

Og það er okkur öllum að kenna.

Við borðum allt of mikið af súkkulaði. Stærstu súkkulaðiframleiðendur heims, Mars, Inc. og Barry Callebaut hafa bent á gögn sem sýna fram að súkkulaðið í heiminum gæti hreinlega klárast ef ekkert breytist. Fjallað er um málið á vef Washington Post.

Hinn svokallaði súkkulaðihalli, sem á sér stað þegar bændur framleiða minna kakó en heimurinn borðar, er að verða eðlilegt ástand. Halli hefur verið á súkkulaðiframleiðslu frá árinu 2012 og iðnaðurinn telur að hann muni bara aukast með árunum.

Á síðasta ári borðaði heimurinn rúmlega 70.000 tonnum meira af kakói en bændur framleiddu. Súkkulaðiframleiðendur benda á að þessi tala gæti farið upp í milljón tonn árið 2020 og tvær milljónir tonna árið 2030.

Samkvæmt umfjöllun Washington Post er framboðið vandamálið. Veðurfar í vestur-Afríku hefur haft slæm áhrif á uppskeruna og þá sérstaklega á Fílabeinsströndinni og í Gana, þar sem meira en 70% af kakói heimsins er framleitt. Þá hefur slæm sveppasýking einnig haft slæm áhrif og þurrkað út 30-40% af framleiðslunni. Þetta hefur orðið til þess að kakóræktun er ekkert sérstaklega eftirsóknarverður bisness fyrir bændur, sem hafa í staðinn byrjað að rækta t.d. korn.

Loks hefur heimurinn aldrei verið sjúkari í súkkulaðið sitt. Vaxandi ást kínverja á súkkulaði ku vera áhyggjuefni ásamt auknum vinsældum dekkra súkkulaðis. Hefðbundið súkkulaðistykki inniheldur kannski um 10% kakó á meðan þau dökku innihalda um 70%. Verð á kakói hefur því hækkað um 60% síðustu tvö ár og framleiðendur hafa fylgt í kjölfarið.

Til að koma í veg fyrir skort hafa bændur farið út í nýsköpun. Vísindamenn hafa t.d. þróað tré sem gefa af sér sjö sinnum meira kakó en hefðbundin kakótré.

Stóra áhyggjuefnið er hins vegar bragðið, sem er dauft. Óvíst er hvort minna bragð muni hafa áhrif á verð en iðnaðurinn tekur því eflaust fagnandi ef það þýðir að þeir geta haldið áfram að framleiða samkvæmt eftirspurn markaðarins.

Auglýsing

læk

Instagram