Sýrlenskur flóttamaður opnar kebabstað á Akureyri: „Með þessu erum við að byggja brú milli Akureyrar og Aleppo“

Veitingastaðurinn Aleppo Kebab mun opna á Akureyri þann 1. ágúst en hann verður sá eini sinnar tegundar í bænum. Það er Khattab Almohammad, flóttamaður frá Sýrlandi sem stendur að opnun staðarins. Khattab starfaði áður sem enskukennari í Aleppo en ætlar nú að reyna fyrir sér í veitingabransanum. Hann segir í samtali við Nútímann að með opnun staðarins vilji hann brúa bilið á milli tveggja menningarheima. „Með þessu erum við að byggja brú milli Akureyrar og Aleppo,“sagði Khattab.

Khattab var í hópi fyrstu flóttamannana sem fluttu til Íslands frá Sýrlandi en hann kom ásamt börnum sínum sex, eiginkonu og tengdamóðir í janúar 2016. Hann vonar svo sannarlega að Akureyringum eigi eftir að líka við staðinn sem staðsettur verður í miðbæ Akureyrar. „Við vonum að Akureyringar verði ánægðir með staðinn en það á auðvitað eftir að koma í ljós,“ sagði Khattab.

Á staðnum verður boðið upp á sýrlenskan og tyrkneskan skyndibita, svosem falafel, shawarma og baklava. Þá mun staðurinn einnig selja svokallaðar shishavatnspípur. Merki Aleppo-Kebab vísar í borgarvirkið í Aleppo sem hefur orðið fyrir miklum skemmdum í stríðinu.

Auglýsing

læk

Instagram