Tapið gegn Íslandi situr ennþá í leikmönnum Englands: „Leikmennirnir gleyma þessu aldrei“

Jordan Henderson, leikmaður Liverpool og enska landsliðsins í fótbolta, segir að sárin eftir tap Englands gegn Íslandi á EM í sumar muni aldrei gróa. Þetta kemur fram á vef Daily Mail.

Ísland vann frækinn sigur á Englandi í 16 liða úrslitum á EM í sumar. Haft er eftir Jordan á vef Daily Mail að leikurinn sitji í honum, nú nokkrum mánuðum síðar.

„Ég veit það að það er auðvelt að segja að maður læri af þessu og noti til að hvetja sig áfram svo þetta gerist ekki aftur en leikmennirnir gleyma þessu aldrei,“ segir hann.

Ég hef sjaldan verið á verri stað. Og ég spilaði ekki einu sinni leikinn. Mér leið samt eins og hluta af liðinu á vellinum. Við erum í þessu saman og ég hafði mikla trú á okkur.

Hann segir liðið hafa brugðist öllum — landinu, aðdáendunum, stjóranum en Roy Hodgson hætti sem þjálfari liðsins eftir leikinn.

„Það var hræðileg stemning í klefanum. Fólk var tilfinningaríkt. Stjórinn var tilfinningaríkur þegar hann spjallaði við okkur eftir leikinn. Það var ekki auðvelt að horfa upp á það. Við erum bara mannlegir,“ segir Jordan.

Auglýsing

læk

Instagram