„Þetta sýnir kærleikann og stuðninginn sem finna má hér á Íslandi“

Draumur Pippu, sjö ára bandarískrar stúlku, um að koma til Íslands hefur ræst. Nútíminn fjallaði um Pippu þegar hópsöfnun til að fjármagna ferðina var á lokametrunum, eftir að hljómsveitin Sigur Rós lagði til peninga og vakti á málinu athygli.

Pippa, bróðir hennar, foreldrar og afi komu til Íslands á laugardag. Fréttastofa RÚV náði tali af fjölskyldunni og var pabbi Pippu hrærður í fréttunum í gær:

Það er með ólíkindum hvað allir hafa gert fyrir okkur. Það er stórkostlegt. Mér fannst við ekki fá mikinn stuðning í Bandaríkjunum. Um leið og þetta fréttist hér á Íslandi skaut upp kollinum alls konar fólk sem vildi hjálpa okkur þótt það hefði aldrei hitt okkur, fólk frá öðru landi. Þetta sýnir kærleikann og stuðninginn sem finna má hér á Íslandi.

Pippa fékk heilablóðfall við fæðingu vegna súrefnisskorts og var vart hugað líf. Hún fékk heilalömun í kjölfar heilablóðfallsins og getur því ekki gengið. Þá er hún með Lennox-Gastaut heilkenni, sem er sjaldgæfur sjúkdómur og lýsir sér með mjög illvígum krömpum sem svara illa eða ekki hefðbundnum flogaveikilyfjum. Sjúkdómurinn leiðir til hrörnunar, bæði líkamlega og andlega.

„Við erum komin vegna þes að dóttir mín átti sér þann draum að koma til Íslands en þá ósk má rekja til ástar hennar á Sigur Rós,“ sagði móðir Pippu í viðtali í fréttum RÚV.

Á söfnunarsíðu Pippu vst því lýst þegar hún sá Sigur Rós á tónleikum í Kansas í fyrra. Fjölskyldan óttaðist að hávaðinn og blikkandi ljósin myndu verða til þess að Pippa fengi flogakast en hún kættist meira eftir því sem hávaðin jókst og ljósin blikkuðu hraðar:

Hún hló og veifaði höndunum eins og hún væri að stýra tónleikunum. Hún var heilluð og spennt alla tónleikana. Og núna krefst hún þess að fá að hlusta á sólóplötuna hans Jónsa á hverjum morgni á leiðinni í skólann.

Pippa gekkst undir erfiða mjaðmaðgerð í mars og tíminn eftir aðgerðina var henni afar erfiður. Mamma hennar segir að Heima, tónleikamynd Sigur Rósar, hafi hjálpað henni mikið í endurhæfingunni. „Hún grét ekki í tvo klukkutíma og einbeitti sér að sjónvarpinu allan tímann. Hún var heilluð og myndin hjálpaði henni að ná bata,“ segir á söfnunarsíðunni, um þegar mamma hennar leyfði Pippu að horfa á myndina eftir aðgerðina.

Auglýsing

læk

Instagram