Þrjár stúlkur rændu pappamynd af Alfreð Finnbogasyni, öryggismyndavél náði upptöku af glæpnum

Pappamynd af Alfreði Finnbogasyni í fullri stærð var rænt úr Gamla bíói á þriðjudaginn. Öryggismyndavélar náðu upptöku af þjófunum sem reyndust vera þrjár ungar konur og forsvarsmenn Gamla bíós skora á þær að skila Alfreð, áður en leitað verði annarra leiða til að hafa uppi á honum.

Nokkrir landsliðsmenn í fullri stærð voru prentaðir út fyrir EM höllina í Gamla bíói og eru hugsaðir fyrir Instagram-leik þar sem gestir geta unnið ferð til Kaupmannahafnar, taki þeir sjálfu með sér og einum leikmanninum og merki myndina #EMgamlabio.

Ása Berglind Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri í Gamla bíói, segir í samtali við Nútímann að Alfreð sé sárt saknað. „Það sem þessar ungu konur vissu ekki er að þær voru í mynd allan tímann og því staðnar að verki við þetta mannrán,“ segir hún.

Forsvarsmenn Gamla bíó skora á þær að skila Alfreði Finnbogasyni, annars sjái þeir sig knúna til að auglýsa eftir þeim á samfélagsmiðlum.

Engan bilbug er að finna á Ásu og félögum í Gamla bíó og lofa þau EM stemningu á öllum hæðum á meðan mótið stendur yfir.

„Allir leikir verða sýndir á stórum skjá í bíósalnum og frítt er inn á meðan húsrúm leyfir,“ segir hún og bendir á að áhugasamir geti tryggt sér gott sæti með því að kaupa sér miða fyrir 5.000 krónur sem inniheldur fjóra drykki af barnum, matarbita, snakk og ýmislegt annað.

Þá verða Þorsteinn Joð og félagar í Sjónvarpi Símans með EM svítuna í Petersen svítunni á þriðju hæð og senda þar beint út á meðan Evrópumótið stendur yfir.

Auglýsing

læk

Instagram