Þrjú kynferðisbrot á Þjóðhátíð í Eyjum: Þrjár konur hafa leitað til neyðarmóttöku kynferðisbrota

Þrjár konur hafa leitað til neyðarmóttöku kynferðisbrota á Landspítalanum í Fossvogi eftir Verslunarmannahelgina. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Eyrún Björg Jónsdóttir verkefnisstjóri neyðarmótökunnar segir í fréttum RÚV að þrjár ungar konur hafi komið á móttökuna. Brotin voru öll framin á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.

Nútíminn greindi frá því morgun að enginn hafi lagt fram kæru í Reykjavík vegna kynferðisofbeldis á Þjóðhátíð um helgina. Eyrún segir í frétt RÚV að það sé undir þolendum komið hvort brotin verði kærð. Hún segir að reynsla undanfarinna ára sýni að liðið geta nokkrir dagar frá broti þar til þolendur leiti til neyðarmóttökunnar.

Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri í Vestmannaeyjum segir í frétt RÚV að upplýsingar um störf lögreglunnar á Þjóðhátið og tölur um afbrot verði birtar í dag eða á morgun.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Vestmannaeyjum voru engar alvarlegar líkamsárásir kærðar til lögreglunnar á Þjóðhátíð. Hátíðin fór samkvæmt lögreglu „vel fram miðað við þann fjölda sem hingað kom að skemmta sér.“

 

Auglýsing

læk

Instagram