Þýski rithöfundurinn var að grínast: „Maður á aldrei að fokka í hinni stórkostlegu íslensku þjóð“

Kafli úr bók rithöfundarins Oliver Maria Schmitt vakti mikla athygli í síðustu viku. Schmitt sagði veðurfarið hrylli­legt, Íslend­inga hroka­fulla og mat­inn, ef mat skyldi kalla, vond­an.

Í bók Schmitts heit­ir „Ich bin dann mal Ertugr­ul. Traum­reisen durch die Hölle und zurück“ er heill kafli um Ísland. Þar kemur fram að Ísland sé daunill og gufu­mettuð eyja þar sem ferðamenn eru féflett­ir. Lauga­veg­ur­inn er fár­an­lega lít­il gata, þakin tóm­um flösk­um og saur, og þar hóp­ast sam­an ung­ir alkó­hólist­ar sem detta hver um ann­an.

Þetta er þó allt kaldhæðni. Schmitt elskar nefnilega Ísland og segir landið paradís í augum þjóðverja í viðtali á vef Iceland Magazine.

Hann segir þó að viðbrögð Íslendinga við kaflanum hafa verið ofsafengin. Það sé hinsvegar eðlilegt þegar fólk leikur sér kaldhæðnislega með erkitýpur.

„Ég hef lært mína lexíu: Maður á aldrei að fokka í hinni stórkostlegu íslensku þjóð,“ segir hann léttur á vef Iceland Magazine.

Schmitt er nefnilega mikill aðdáandi lands og þjóðar eftir að hann kom til landsins árið 2008 til að fjalla um næturlífið í Reykjavík.

Ég hafði engar væntingar og ýmislegt kom mér á óvart: Svalir krakkar, frábær partí, stórkostlegir næurklúbbar eins og hinn ógleymanlegi Nasa og ótrúleg náttúrufegurð.

Schmitt segir á vef Iceland Magazine næturlífið, menningin og maturinn hafi heillað hann mest.

„Ég smakkaði hrefnukjöt og sætti mig samstundis við að láta drepa allar hrefnurnar þar sem þetta var besta kjöt sem ég hef smakkað. Ég borðaði líka Skyr — löglega eiturlyfið sem allir Íslendingar nota.“

Hann var samt ekki ánægður með að fólk skuli borða lunda.

„Eina sem ég hataði við Ísland var að það skuli vera boðið upp á lunda á veitingastöðum. Lundar eru fallegustu og elskulegustu fuglarnir á jörðinni. Þeir eru líka pínkulitlir. Aðeins frumstætt ómenni myndi njóta þess að drepa og borða svo fallega skepnu.“

Auglýsing

læk

Instagram