Tókust á um jafnréttismál í auglýsingabransanum: „Nagandi hræðsla við að setja konur í forsvar“

Hart var tekist var á um stöðu jafnréttismála innan auglýsingabransans á opnum fundi á vegum SÍA og ÍMARK á þriðjudaginn.

Dóra Ísleifsdóttir, prófessor í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands, segir að auglýsingastofur séu síðasta vígi ferðraveldisins.

Hún segir stöðuna í jafnréttismálum innan auglýsingabransans óásættanlega. Innan hans sé nagandi hræðsla við að setja konur í stjórnendastöður og sú hugmynd að auglýsingastofurnar verði á einhvern hátt veikari við það sé ríkjandi.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir að ekki sé flókið að jafna stöðuna, stjórnendur þurfi einfaldlega að taka ákvörðun.

Fundurinn hafði yfirskriftina Skiptir kynja(ó)jafnvægi máli í auglýsingagerð og markaðsmálum? Þar voru kynntar niðurstöður nýrrar könnunar um kynjahlutföll í auglýsinga- og markaðsmálum. Þar kom meðal annars fram að hlutfall kvenna á auglýsingastofum hefur hækkað frá árinu 2011. Helsta breytingin hefur þó orðið í hópi markaðsráðgjafa og hjá fólki í hugmynda- og textagerð. Karlmenn eru enn ráðandi í stjórnunarstöðum.

Eftir að niðurstöðurnar höfðu verið kynntar tókst auglýsinga- og markaðsfólk á í pallborði og þar urðu heilmikil átök, átök sem Dóra segir að hafi verið orðin löngu tímabær og séu réttmæt gagnýni byggðri á hreinni viðskipaskynsemi og samfélagslegri ábyrgð.

„Þegar kemur að því að hafa völd á þessum stöðum, þá er alveg nagandi hræðsla við að setja konur í forsvar,“ segir Dóra og bætir við að sú hugmynd sé ríkjandi að auglýsingastofurnar verði á einhvern hátt veikari, séu konur við stjórnvölinn. Hún segir að í gegnum tíðina hafi konur þurft að haga sér eins og karlmenn til að fá völd en nenni því ekki lengur. Þær viti vel að stjórnarmið og hættir kvenna eigi fullt erindi.

Dóra segir að átökin sem urðu í pallborðinu hafi verið löngu tímabær. „Það er búið að gefa miklu meira en nóg af tíma og tækifærum til að auglýsingamenn leiðrétti sig sjálfir. Ég er orðin alveg hrútleið á því að hlusta á hrútskýringar um að konur þurfi sjálfar eitt eða neitt. Konur hafa viljað og gert. Karlmenn hafa verið miklu meira í að láta eins og þær séu ekki þarna,“ segir Dóra.

Hún segist telja að karlmenn geri sér ekki grein fyrir þessari valdníðslu sinni. „Þess vegna telja þeir, eins og fiskur sem syndir í sjó og sér ekki sjóinn, að forgjöfin sé ekki þarna. Konur sjá þetta, berjast í því, sjá síðan að árangurinn er lítill sem enginn og hugsa, ég nenni ekki þessu bulli, og fara,“ segir Dóra en sjálf hefur hún sagt stöðu sinni hjá LHÍ lausri og heldur til Noregs þar sem hún verður prófessor í Bergenháskóla.

Margir höfðu samband við Dóru eftir fundinn á þriðjudaginn. Hún segir að flestar konurnar sem hafi haft samband hafi fagnað því að umræðan hafi verið opnuð svona kröftuglega. Karlmennirnir hafi aftur á móti rokið upp til handa og fóta og sagt að hún hafi átt að verja þá. „Ég spyr bara: Hvenær hafa þeir gert það fyrir mig eða konurnar í bransanum. Hvernig á að tryggja að sannanlega klárar konur hafi áhuga á að starfa í bransanum og séu metnar að verðleikum? Bransinn þarf að svara því,“ segir Dóra.

Dóra er bjartsýn á að það geti orðið breytingar á kynhlutföllum innan auglýsingabransans en það sé undir starfsfólkinu og viðskiptavinum auglýsingastofanna komið.

„Auglýsingastofur eru stórkostlegir vinnustaðir, mest skapandi og opinskáasta umhverfi sem ég hef verið í. Þar ríkir almennt mikið jafnræði þangað til kemur að stöðuveitingum og launum. Ég held að ef konur nýti hviðuna og menn líti í eigin barm þá er þetta fólk með svo opinn huga og svo fullfært um að hugsa skýrt og taka ábyrgð. Ég held að það sé í raun og veru lítið mál að leiðrétta þetta. Þetta er fólk sem kann allt að taka ákvarðanir og gerir það fimmhundruð sinnum á dag. Að breyta þessu er bara ein ákvörðun.“ segir Dóra.

Þurfa að taka ákvörðun og henda sér í það

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, sat einnig í pallborðinu. Hún segir í samtali við Nútímann að til þess að breyta kynjahlutfalli á auglýsingastofum þurfi stjórnendur þeirra fyrst og fremst að taka ákvörðun og henda sér í það.

„Staðan er auðvitað sú að karlar eru ennþá ráðandi á þessum markaði eins og sést í nýjum tölum frá SÍA. Þetta hefur vissulega batnað mikið en við eigum ennþá langt í land. Við þurfum að hugsa um þá ábyrgð sem markaðsfólk hefur á þeim skilaboðum sem við sendum út í samfélagið. Mér finnst áhugavert þegar verið að ræða um að það þurfi að breyta kynjahlutfalli á auglýsingastofum, eins og á öðrum stöðum, að þá snýst þetta fyrst og fremst um að stjórnendur taki ákvörðun og hendi sér í það. Þetta er ekkert flóknara,“ segir Birna.

Hún segir að Íslandsbanki geri sífellt meiri kröfur til birgja sinna, meðal annars til auglýsingastofa, um að hugað sér að jafnréttismálum innan fyrirtækjanna.

„Í dag sjáum við mjög mikið af konum í stöðum markaðsstjóra í íslenskum fyrirtækjum en þær eru þá aðallega að vinna með körlum sem skipa meirihluta af auglýsingastofum. Það þarf að vera meira jafnvægi þarna á milli. Mér finnst líka fyrirtæki eiga, í krafti stærðar sinnar, að hafa áhrif til góðs og við sjáum það hjá Íslandsbanka að við getum haft áhrif í gegnum innkaupastefnu okkar. Við erum sífellt að auka þær kröfur til okkar birgja, þar á meðal auglýsingastofu, að hugað sé að jafnréttismálum, umhverfismálum og fleiri þáttum. Þetta er einfaldlega hluti af okkar samfélagsábyrgð,“ segir Birna.

Auglýsing

læk

Instagram