Umdeild tillaga afgreidd: Vilja taka skipulagsvald af Reykjavík, Akureyri og Egilsstöðum

Tillaga Höskuldar Þórhallssonar, formanns umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, um að skipulagsvald Reykjavíkurflugvallar færist frá Reykjavíkurborg til Alþingis og ríkisvaldsins var afgreidd úr nefnd í morgun.

Meirihluti nefndarinnar lagði til þær breytingar á frumvarpinu að skipulagsvald yfir öllum flugvöllum sem geta sinnt millilandaflugi er tekið af m.a. sveitarfélögunum á Akureyri og Egilsstöðum.

Á þetta benda minnihlutaþingmennirnir Katrín Júlíusdóttir, Róbert Marshall og Svandís Svavarsdóttir á Facebook-síðum sínum.

Svandís Svavarsdóttir segir á Facebook-síðu sinni að viðkomandi sveitarfélög hafi ekki fengið að koma á fund nefndarinnar og heldur ekki ráðuneyti innanríkismála og skipulagsmála sem er umhverfisráðuneytið.

Hér eru á ferðinni forkastanleg vinnubrögð og yfirgangur sem er formanni nefndarinnar og meirihlutanum til skammar.

Róbert Marshall talar um pólitískt reginhneyksli og Katrín Júlíusdóttir segist hafa haldið að stjórnarmeirihlutinn gæti ekki komið sér á óvart lengur.

„Sama hvað fólki kann að finnast um staðsetningu flugvallarins í Reykjavík þá hlýtur okkur öllum að vera annt um vönduð vinnubrögð og sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga,“ segir Katrín.

 

Auglýsing

læk

Instagram