Urðu vitni að uppsögnum samstarfsfólks síns

Árni Stefán Jónsson, formaður SFR stéttarfélags í almannaþjónustu, sakar stjórnvöld um svik og lögbrot við uppsagnir þegar starfsfólki Samgöngustofu var sagt upp. Hann gagnrýnir aðferðina við uppsagnirnar segir að fólk hafi orðið beint vitni að uppsögnum samstarfsfólks síns.

Þetta kemur fram í pistli Árna á Vísi.

Fólkinu var sagt upp í síðustu viku. Árni Stefán segir í pistli sínum að Samgöngustofa hafi ekki sinnt skyldum sínum við uppsagnirnar og aðengin upplýsingagjöf hafi verið önnur en stuttur fundur með trúnaðarmönnum starfsmanna hálftíma áður en starfsmönnum voru tilkynntar fyrirætlanir stjórnenda á starfsmannafundi.

„Uppsagnirnar eru því lögbrot,“ segir hann. „Á umræddum starfsmannafundi var starfsfólk beðið um að fara á starfsstöðvar sínar þar sem stjórnendur myndu hringja í þá er málið varðaði. Á meðan starfsfólk beið eftir hringingu að ofan, sinntu þeir venjubundnum störfum og svöruðu símanum, milli vonar og ótta, í hvert sinn sem hann hringdi.“

Sumum var létt en aðrir fengu uppsögn. Flestir voru þannig beint vitni að uppsögn samstarfsfólks enda ríflega 10% starfsmanna sem misstu vinnuna.

Hann segir SFR stéttarfélag mótmæla harðlega þessum svikum stjórnvalda „og þeim ólögmætu aðferðum sem notaðar voru við uppsagnirnar og kjaraskerðingar starfsmanna.“

Auglýsing

læk

Instagram