„Vandræði“ Ara reyndust grín á kostnað vina hans: 11 dúkkustólar urðu ekki að 1.100 hótelstólum

Hrekkjalómurinn Ari Hólmsteinsson ákvað að grínast í vinum sínum og segjast hafa pantað 11 dúkkustóla á Alibaba.com en endað með 1.100 hótelstóla í fullri stærð. Grínið setti Ari fram á Facebook og vakti það mikla athygli á meðal vina hans sem voru fullir samúðar.

Í samtali við Nútímann segir Ari að vinirnir hafi algjörlega gleypt við gríninu. „Nokkrir vina minna á Facebook vildu kaupa stóla. Og flestir skrifuðu þannig að þeir virtust trúa þessu,“ segir hann léttur.

Vinir Ara lögðu meðal annars til að hann myndi stækka húsið sitt til að koma stólunum fyrir. Þá var honum ráðlagt að æfa sig í kínverskunni og einn sagði að hann hefði átt að fylgjast betur með í tímum hjá Frussa skólastjóra. Loks var lagt til að hann myndi opna hótel.

Fólk hefur lent í ýmsu þegar það pantar á netinu. Það vakti til dæmis talsverða athygli þegar hönnuðurinn Svana Lovísa Kristjánsdóttir pantaði Lego-haus á Ali Express sem átti að vera í yfirstærð en til landsins kom agnarsmár haus.

Ari pantaði í alvöru stólana stóru og notaði myndir af þeim til að plata vini sína enn frekar. Hann birti til dæmis mynd af myndarlegri stólastæðu í athugasemd undir gríninu og sagðist hafa komið nokkrum stólum í félagsheimili. Þá birti hann mynd af gámnum, sem undirbyggði grínið enn frekar.

En hvernig varð grínið til?

„Það kom eiginlega af sjálfu sér. Í janúar þegar ég var að ganga frá pöntun þá segir konan við mig: „Við skulum bara vona að þú sért ekki að panta fullan gám af dúkkustólum.“ Þetta mundi ég þegar gámurinn kom í síðustu viku og setti þetta inn fyrir vinina — enda Facebook lokað þannig að aðeins vinir sjá.“

En „vandræði“ Ara náðu talsvert lengra og þetta tíst hefur vakið mikla athygli á Twitter

Ari segir að vinir sínir muni alls ekki erfa grínið við hann og gefur ekki upp í hvað stólarnir verða notaðir. „Annað en að sirka einn fjórði fer í góðgerðarmál á Ísafirði,“ segir hrekkjalómurinn laufléttur.

Auglýsing

læk

Instagram