Vann sjónvarp sama dag og hann keypti nýtt sjónvarp

Sölvi Már Hjaltason er ekki mjög duglegur við að taka þátt í leikjum á Facebook. Hann lét sig þó hafa það að freista gæfunnar og reyna að vinna nýtt sjónvarp í HM-leik raftækjaverslunarinnar Elko á dögunum.

Svo liðu dagarnir og hann var búinn að gleyma leiknum þegar hann fór og endurnýjaði sjónvarp heimilisins en sama dag var honum tilkynnt að hann hafði unnið nýtt sjónvarp — tíu tommum stærra en það sem hann keypti sér.

Sölvi Már tekur ekki reglulega þátt í Facebook-leikjum en tók þátt í þessum þar sem það var nóg að skilja eftir ein ummæli, í stað þess þurfa að læka og deila:

Maður er ekki bjartsýnn að vinna svona leiki. Ég var eiginlega búinn að steingleyma þessum leik. Sjónvarpið sem við áttum var handónýtt og ég var gjörsamlega búinn að fá nóg.

Hann og kærastan fóru rétt eftir hádegi í Elko og festu kaup á 40 tommu sjónvarpi. Sölvi lenti í vandræðum með að setja það upp og fer á netið til að leita upplýsinga. Þá tekur hann eftir að hann er búinn að vinna annað sjónvarp, 50 tommu.

Hann fékk því hitt endurgreitt en setti vinningssjónvarpið upp í stofunni.

Spurður hvort hann vinni oft í svona leikjum segist hann telja að þetta sé einstakt tilvik. Hann nefnir þó að þvottavélina á heimilinu hafi tengdamóðir hans unnið í leik fyrir nokkrum árum.

„Þannig að maður siglir bara svona í gegnum lífið,“ grínast hann laufléttur.

Auglýsing

læk

Instagram