Vonarstræti framlag Íslands til Óskarsverðlauna

Kvikmyndin Vonarstræti, eftir Baldvin Z, hefur verið valin sem framlag til Óskarsverðlauna á næsta ári. Þetta kemur fram á Klapptre.is.

Vonarstræti fékk meirihluta atkvæða meðlima Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar en kosningu lauk á miðnætti í gær.

Tvær íslenskar kvikmyndir hafa hlotið tilnefningu til Óskarsverðlauna. Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson var tilnefnd árið 1992 í flokknum besta erlenda kvikmyndin og árið 2006 var Síðasti bærinn eftir Rúnar Rúnarsson tilnefnd í flokknum besta leikna stuttmyndin.

Vonarstræti fjallar um fortíðardrauga, þöggun, sársauka og syndaaflausn. Áhorfendur fá að fylgjast með þremur ólíkum persónum fóta sig í íslensku samfélagi á árunum rétt fyrir hrun og hvernig örlög þeirra fléttast saman á áhrifaríkan hátt. Handritið skrifuðu þeir Birgir Örn Steinarsson og Baldvin Z, sem leikstýrir einnig myndinni. Framleiðendur eru þeir Júlíus Kemp og Ingvar Þórðarson hjá Kvikmyndafélagi Íslands.

Auglýsing

læk

Instagram