Vopnaðir sérsveitarmenn gæta öryggis gesta á 17. júní og Secret Solstice: „Því hver sekúnda skiptir máli“

Vopnaðir lögreglumenn gæta öryggis gesta á hátíðarhöldum þjóðhátíðardagsins og tónlistarhátíðarinnar Secret Solstice um helgina. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri segir í samtali við RÚV að lögreglan hafi áhyggjur af því að voðaverk á borð við það sem framið var í Lundúnum á dögunum verði framið hér á landi. Þess vegna verði lögreglan vopnuð á slíkum samkomum í sumar.

„Í fyrsta lagi vil ég taka það fram að við erum ekki að auka vopnaburð,“ segir Haraldur í samtali við RÚV.

Það sem við erum að gera er að við erum að gera hina vopnuðu lögreglu í landinu, sérsveit ríkislögreglustjóra, sem dagsdaglega er undir vopnum, meira sýnilega á stórum samkomum. Samkomum þar sem tugir þúsunda koma saman á einhverri útihátíðinni.

Haraldur vísar í þróun sem hefur átt sér stað í nágrannalöndunum og segir lögregluna hafa þurft að endurskoða starfsætti í sérsveitinni. „[Við] fórum þessa leið til að auka viðbragðið til þess að okkar viðbragð yrði skjótara en það var áður,“ segir hann á vef RÚV.

„Já við fórum yfir stöðuna. Og okkur þótti ástandið orðið þannig að við gætum ekki látið nokkurn tíma líða þar til lögregla setur á sig vopn. Því hver sekúnda, hver mínúta, skiptir máli. Við sáum að breska lögreglan yfirbugaði þessa þrjá menn á átta mínútum. Sem er til eftirbreytni.“

Auglýsing

læk

Instagram