Myndband: Stór alþjóðleg jólaauglýsing Pepsi Max tekin upp á Íslandi

Íslenskir brimbrettakappar á LED-lýstum brettum eru í aðalhlutverki í nýrri jólaauglýsingu Pepsi MAX sem verður sýnd um alla Evrópu nú á aðventunni. Að stíga á brimbretti í ísköldum íslenskum sjó er varla fyrsta jólahefðin sem fólki dettur í hug, en það er þó raunin í nýju auglýsingunni þar sem fólk er hvatt til að prófa eitthvað nýtt þessi jólin. Horfðu á auglýsinguna í spilaranum hér að ofan.

Auglýsingin fjallar um Heiðar Loga Elíasson og félaga sem sleppa því í þetta sinn að eyða jólunum fyrir framan sjónvarpið, en skella sér þess í stað á brimbretti og lýsa upp íslensku jólanóttina á óvenjulegan hátt – því brettin eru skreytt sérstökum LED-perum. Auglýsingastofan AMV BBDO gerði auglýsinguna sem er framleidd af Great Guns.

Heiðar Logi, sem einnig hefur setið fyrir hjá 66°Norður og klæðist einmitt fatnaði frá þeim í auglýsingunni, er nýkominn úr brimbrettaferð til Marokkó. Hann segir Pepsi Max-auglýsinguna hafa verið skemmtilegt verkefni en hún var skotin á tveimur dögum, annars vegar við Vík í Mýrdal og hins vegar á leynistað á Reykjanesi þar sem oft má finna góðar öldur. Einnig fara brimbrettakapparnir Egill Örn Bjarnason, Erlendur Þór Magnússon og Elín Kristjánsdóttir með hlutverk í auglýsingunni.

Þessi nýja auglýsing verður frumsýnd í íslensku sjónvarpi á næstu dögum.

Auglýsing

læk

Instagram