Örskýring: Björn Steinbekk og týndu miðarnir á EM í fótbolta í Frakklandi

Um hvað snýst málið?

Fjöldi Íslendinga sem keyptu miða af athafnamanninum Birni Steinbekk á leik Íslands og Frakklands á EM í Frakklandi fengu ekki miðana afhenta.

Björn segist hafa verið svikinn af miðasölustjóra hjá Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA.

Hvað er búið að gerast?

Í samtali við RÚV segist Björn hafa lofað 450 miðum til Íslendinga á leikinn gegn Frakklandi og að hann hafi náð að afhenta tæplega 400 miða.

Gríðarleg reiði var á meðal Íslendinga í París vegna málsins. Vísir greinir frá því að það hafi legið við slagsmálum þegar afhending miðanna átti að fara fram. Þá hafði fólk beðið allan daginn eftir miðunum og ekki fengið skýr svör um framhaldið.

Vísir hefur eftir konu sem var svikin um miða að fólk hafi verið í geðshræringu og greinir einnig frá því að kona á staðnum hafi fengið miða sem búið var að nota.

Í frétt RÚV vísar Björn máli sínu til stuðnings í tölvupóst sem hann segir vera frá yfirmanni miðasölu hjá UEFA fyrir keppnina í ár. Í tölvupóstinum sést ekki hver skrifaði hann eða úr hvaða tölvupóstfangi hann er sendur. Þá er ekkert tengir hann við UEFA og nafn Björns er hvergi að finna.

Uppfært: RÚV greinir frá því að Björn hafi verið blekktur. Talsmaður UEFA staðfestir í samtali við RÚV að tölvupósturinn sé falsaður.

Hvað gerist næst?

Björn segist í samtali við RÚV ætla að endurgreiða öllum sem keyptu af honum miða sem fengust ekki afhentir. Þá segist hann íhuga málaferli gegn UEFA vegna miðakaupanna og vísar á bug að miðarnir sem hann hafi selt hafi verið falsaðir eða útvegaðir óeðlilegum leiðum.

Vísir greinir frá því að franska lögreglan sé að skoða málið.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram