Örskýring: Guðni settur í embætti en hver er hann eiginlega?

Um hvað snýst málið?

Form­leg embætt­i­staka Guðna Th. Jó­hann­es­son­ar, verðandi for­seta Íslands, fer fram í alþing­is­hús­inu í dag og hefst dag­skrá­in klukk­an 15:30 á helg­i­stund í Dóm­kirkj­unni. Guðni verður sjötti for­seti lýðveld­is­ins og sá yngsti til þess að gegna embætt­inu.

Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son lét af embætti á miðnætti í gær­kvöldi eftir að hafa gegnt embættinu frá ár­inu 1996.

Hvað er búið að gerast?

Guðni fæddist í Reykjavík 26. júní árið 1968 og ólst upp í Garðabæ. Hann á tvo bræður, Patrek, íþróttafræðing og handboltaþjálfara, og Jóhannes kerfisfræðing.

Guðni er dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hann hefur starfað sem kennari við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Bifröst og University of London. Guðni hefur skrifað fjölda sagnfræðirita, meðal annars um sögu þorskastríðanna og forsetaembættið.

Guðni er kvæntur Elizu Reid og kynntust þau á námsárum sínum við Oxford-háskóla á Englandi. Eliza er frá Kanada og stundaði nám í nútímasögu í Oxford.  Eliza er með MSt-gráðu frá Oxford-háskóla og BA-gráðu í alþjóðasamskiptum frá Toronto-háskóla.

Börn Guðna og Elízu eru Duncan Tindur (f. 2007), Donald Gunnar (f. 2009), Sæþór Peter (f. 2011) og Edda Margrét (f. 2013). Guðni á dótturina Rut (f. 1994) með fyrri eiginkonu sinni, Elínu Haraldsdóttur, viðskiptafræðingi og listakonu.

Hvað gerist næst?

Fjölskyldan flytur á Bessastaði en eins og Nútíminn greindi frá á dögunum eru þau búin að finna fólk til að leigja húsið sitt.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram