Örskýring: Hvaða límmiðar eru þetta sem allir eru að tala um og af hverju er þeir gagnrýndir?

Um hvað snýst málið?

Tónlistarhátíðin Secret Solstice hefur látið útbúa sérstaka límmiða sem límdir eru ofan á glös og koma í veg fyrir að hægt sé að lauma nauðgunarlyfi ofan í þau. Límmiðarnir eru með litlu gati fyrir rör en skemmtistaðirnir Prikið, B5 og Dillon taka einng þátt.

Hvað er búið að gerast?

Þórunn Antonía, starfsmaður hátíðarinnar, segir í samtali við Fréttablaðið í dag að hugmyndin hafi kviknað út frá sorg og vanmáttarkennd stúlku sem er henni afar kær og var byrlað lyf á skemmtistað og nauðgað. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, er verndari verkefnisins og tekur þátt í að vekja athygli á því.

Límmiðarnir hafa verið gagnrýndir meðal annars fyrir að veita fólki falskt öryggi. Barátta gegn kynferðisofbeldi hefur undanfarin ár að miklu leyti snúist um að þolendur eigi aldrei að þurfa að bera ábyrgð á ofbeldi gerenda en þar hefur Druslugangan verið fremst í flokki.

Hildur Lilliendahl segir í pistli á Kjarnanum að límmiðarnir séu enn ein tæknilega leiðin fyrir konur til að forðast að karlar nauðgi þeim. „Hún er vond, rétt eins og allar hinar,“ segir hún.

Þá segir hún að með hugmyndinni sé ábyrgðinni velt af gerendum yfir á þolendur, að hún segi konum að þær þurfi að passa sig, að þær beri ábyrgð á að vera ekki nauðgað og að þær eigi að vera hræddar.

Í samtali við Vísi hafnar Þórunn Antonía því að með límmiðunum sé verið að varpa ábyrgðinni á konur. „Þarna er ég að reyna að vekja máls á vanda sem er til og reyna að finna einhverja lausn á því,“ segir hún.

Hvað gerist næst?

Tónlistarhátíðin Secret Solstice fer fram 15. til 18. júní.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram