Örskýring: Hvaða sápuópera var í gangi í Framsóknarflokknum um helgina?

Um hvað snýst málið?

Haust­fundur mið­stjórnar Fram­sókn­ar­flokks­ins fór fram í Hofi á Akur­eyri um helgina og ýmislegt gekk á.

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður flokksins, tilkynnti á fundinum að hann ætli ekki að sækjast eftir endurkjöri sem varaformaður í óbreyttri stjórn. Á fundinum sagði hann ástæðuna vera trúnaðarbrest innan stjórnar flokksins.

Hvað er búið að gerast?

Sigurður Ingi hefur verið hvattur til að bjóða sig fram sem formaður gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, núverandi formanni flokksins. Sigurður hefur sagt að hann ætli ekki að bjóða sig fram gegn sitjandi formanni en virtist opna á slíkt framboð á Fundi fólksins á dögunum.

Yfirlýsing Sigurðar Inga á haustfundinum um helgina hefur gefið vangaveltum um framboð hans gegn Sigmundi Davíð byr undir báða vængi. RÚV greinir frá því að hún hafi komið flokksmönnum á óvart og að mikill ágreiningur sé milli Sigurðar Inga og Sigmundar Davíðs.

Gunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegsráðherra segir yfirlýsingu Sigurðar Inga hafa komið sér og öðrum á óvart. Hann telur að Sigurður fari ekki fram gegn formanninum — með því væri hann að ganga á bak orða sinna.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknar, segir að Sigurður Ingi hafi fengið yfir sig reiðilestur frá Sigmundi Davíð eftir tilkynninguna. Jón Pétursson, formaður Framsóknarfélags Mosfellsbæjar, segir í yfirlýsingu á Facebook-síðu félagsins að Höskuldur sé að ljúga.

Sveinbjörn Eyjólfsson, fyrrverandi aðstoðamaður Guðna Ágústssonar, tilkynnti framboð sitt til formanns flokksins á haustfundinum. Í samtali við RÚV segist hann vilja að kosið verði um formann flokksins og að hann ætli að draga framboð sitt til baka ef Sigurður Ingi gefur kost á sér.

Hvað gerist næst?

Ný forysta Framsóknarflokksins verður kosin á flokksþingi 1. október næstkomandi.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram