Örskýring: Miðamálið í Kópavogi

Um hvað snýst málið?

Sigurjón Jónsson, varabæjarfulltrúi Framsóknar í Kópavegi, óskaði eftir upplýsingum um hversu marga miða Kópavogsbær, og starfsmenn hans, fengu á tónleika stórstjörnunnar Justin Timberlake í Kórnum. Þá óskaði hann eftir að vita hverjir fengu miðana og vildi upplýsingar um tekjur bæjarins af tónleikum, t.d. í gegnum leigu á Kórnum. Loks spurði Sigurjón hvort Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri teldi samræmast siðareglum kjörinna fulltrúa að þiggja slíkar gjafir frá viðskiptamanni bæjarins.

Hvað er búið að gerast?

Ármann svaraði Sigurjóni. Í svari hans kom fram að Kópavogsbær fékk 30 miða á tónleikana. Auk bæjarfulltrúa fengu makar bæjarfulltrúa boðsmiða á tónleikana en Ármann segir í fréttum Stöðvar 2 að boðsmiðar fyrir maka hafi verið vegna fjölskyldustefnu Kópavogsbæjar. Hann segir verðið sem tónleikahaldarinn Sena greiddi fyrir Kórinn vera trúnaðarmál og segist ekki hafa brotið siðareglur.

Af hverju var málið blásið upp?

Þegar miðarnir voru komnir í hús sendi Ármann Kr. út tölvupóst til að segja bæjarfulltrúum frá því. Sigurjón fékk póstinn og sendi til baka að hann væri „klár ásamt maka“. Birkir Jón, bæjarfulltrúi Framsóknar, var hins vegar búinn að þiggja miða og Sigurjón, varafulltrúi hans, fékk því ekki miða. Áhugi Sigurjóns á því að mæta tónleikana hefur gert fyrirspurn hans tortryggilega en hann sagði í viðtali í Harmageddon að hann hafi svarað póstinum um miðana um hæl án þess að pæla.

Örskýringar eru sirka 200 orða fréttaskýringar Nútímans um ruglingsleg mál sem mikið er skrifað um. Sendu okkur póst ef þú vilt að við örskýrum fleiri mál.

Auglýsing

læk

Instagram