Örskýring: Verður kosið í haust eða ekki? Hvað er búið að koma fram?

Um hvað snýst málið?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, sneri aftur í vettvang stjórnmálanna með látum í vikunni.

Í bréfi til Framsóknarfólks sagði hann flokkinn krefjast þess að ríkisstjórnin klári verkefnin sem liggja fyrir áður en það verður boðað til kosninga. Kosningarnar höfðu verið boðaðar í haust en dagsetning hefur ekki verið opinberuð.

Hvað er búið að gerast?

Heimildir Nútímans herma að tvær dagsetningar komi helst til greina fyrir kosningar: 22. og 29. október.

Hvorki Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, né Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra hafa tjáð sig um málið eftir að Sigmundur Davíð sneri aftur. Sigurður Ingi hefur þó fullyrt opinberlega að kosið verði í haust.

Sigmundur Davíð reiknar með að hafa heilmikið um það að segja hvenær boðað verði til kosninga þrátt fyrir að sitja ekki í ríkisstjórn. Þetta kemur fram á vef RÚV. Þar kemur einnig fram að hann telji fráleitt að ákveða kjördag á næstu dögum.

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir það ekki koma til greina að hætta við að hafa kosningar í haust.

Hvað gerist næst?

Talsmenn minnihlutans segja að ekki sé hægt að hefja þingstörf að nýju eftir sumarfrí fyrr en fyrir liggi hvenær kosið verður í haust. Fyrsti þingfundur eftir sumarfrí hefur verið boðaður 15. ágúst næstkomandi.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram