Umdeilt skjálíf smábarna, er ég mögulega að steikja heilann í dóttur minni?

Auglýsing

Hún elskar símann minn meira en ég. Samt elska ég símann minn allnokkuð (nema þegar ég hat’ann, sem er stundum). Í hennar augum er snjalltækið mitt fyrirheit um endalaust fjör og skemmtun, það er fullorðins og fullt af litum, blikki, einhyrningum, regnbogum og stafrænu kandíflossi. Hún er fjögurra ára og ég er upptekin. Ég kaupi tíma með þessu tæki og vegna þess að ég er upplýst PC foreldri þá geri ég það með blöndu af stolti og skömm.

Mér finnst magnað að fylgjast með henni nota símann og spjaldtölvuna. Hún er eins og fiskur í vatni nú þegar (ég viðurkenni með smá óbragð í munninum að ég sótti fyrsta appið fyrir hana þegar hún var 6 mánaða, það var svona sjónörvunar-thingama-jig með svarthvítum myndum. Ég var nýjungagjörn, hún er fyrsta barn. Hún fór líka í ungbarnasund svo slappen sie auf).

Ég veit að flest börn mastera snjalltæknina alveg jafn hratt en ég fylgist ekki með þeim af sömu andakt.

Ef dóttir mín fengi að ráða myndi hún horfa viðstöðulaust á dáleiðandi fríkí Disneycollector vídeó á YouTube og lita Kúlugúbbana og Elsu drottningu að eilífu.

Auglýsing

Við vitum að símar og snjalltæki eru ávanabinandi tól. Þó núorðið lygni sumir aftur augunum og tali fjálglega um daga Nokia 5210 og fastlínusíma þekki ég engan sem ætlar bókstaflega að „fara til baka“ og gefa snjalltæknina upp á bátinn.

Nú er fólk rétt svo farið að rannsaka hvaða áhrif þetta hefur mögulega á kollinn á krökkunum (og okkar eigin haus líka) og reglulega berast okkur fréttir um ótvíræða kosti og ókosti þess að börn á ýmsum aldri noti þessi tæki. Almenna reglan hefur mér virst vera að börn eldri en 3 ára geti haft hag af því að leika sér og læra með snjalltækjum undir verulega ströngu eftirliti. Mínar eigin rannsóknir benda til þess að þegar börn komast á bragðið þá ásælist þau síma og spjaldtölvur á viðlíka sjúklegan hátt og Gollrir þráir hringinn.

Við munum heldur ekki vita strax hvort notkun snjalltækjana mun hafa varanlega áhrif á líkamsstöðu okkar – ég hef lesið fréttir af „smart kryppunni“, vísi að herðakistli sem myndast vegna þess að við gónum svo mikið niður fyrir okkur í stað þess að sitja og ganga bein í baki. Er það ekki orðum aukið? Ég hef ekki hitt neinn Japana sem bendir með þumlinum en nógu mikið var nú skrifað um það fyrir áratug síðan eða svo.

tannleknirSvo ég er ekki ennþá viss um hvort ég sé að steikja heilann heilann í dóttur minni, gera henni greiða eða einfaldlega að réttlæta það fyrir sjálfri mér að rétta henni símann/tölvuna þegar ég þarf breik. En ég viðurkenni að mér gengur ögn betur að stýra hennar notkun heldur en minni eigin. Og svo rámar mig reyndar í að mamma mín hafi leyft mér að horfa viðstöðulítið á Sound of Music á VHS þegar hún þurfti pásu frá okkur systrunum. Ég segi viðstöðulítið því við þurftum auðvitað að spóla til baka. Kannski steikti það áhorf heilann í mér? Hver veit?

Meðan ég reyni að halda kúlinu gagnvart snjalltækjunum, les það sem ég kemst yfir af misvísandi fréttum um skað- og gagnsemi þeirra og sveigi dóttur minni frá klámkenndum tónlistarmyndböndunum og ofbeldisöppunum er huggun mín sú að miðað við hringferla tísku- og tæknistraumana er mjög líklegt að það verði aftur hámóðins að vera með Walkman og alvöru mixteip þegar hún kemst á gelgjuna.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram