Af hverju eru skattaskjól slæm?

— Þau byggjast á svindli. Þau taka arð sem verður til í einu landi og byggist á vinnuafli, velferðar- og menntakerfi og öðrum auðlindum þess lands og færa hann til annars (oftast lítilla eyja með nokkur þúsund íbúum) sem kom hvergi nærri því að skapa tekjurnar og á því enga kröfu á að skattleggja þær og gerir það líka ekki.

— Notendur þeirra nýta frjálst flæði fjármagns, sem er í grunninn jákvætt skipulag, til að láta sem að eignarhaldsfélög í Lúxemburg, Tortóla og Panama séu að fjárfesta í okkar löndum. En í rauninni er þetta sumt okkar ríkasta fólk sem búið er að færa peninga sem urðu til hér og halda svo áfram að nota þá hér. Ekkert af þessum fyrirtækjum fjárfestir sínum peningum í verkefnum í Panama eða á Tortóla. Fólkið sem á þau vill búa hér, fjárfesta hér og njóta virðingar hér. Þau vilja bara ekki borga skatta hér – svona eins og við öll hin.

— Þau eru mismunun á milli þeirra stóru og smáu í landinu. Þeir stóru hafa efni á lögfræðingum og endurskoðendum sem koma hagnaðinum undan en þeir litlu skila sköttunum sínum til samrekstrarins; í rekstur Landspítalans, skólakerfisins, vegagerð, fæðingarorlofsgreiðslur og fleira sem við teljum gott og erum stolt af. Sama efnahagslega starfsemin býr undir en eigendurnir búa í sitt hvorum veruleikanum. Sá litli býr á Íslandi. Sá stóri býr þar líka en hans fé ávaxtast margfalt hraðar og það er ekki af því að hann sé duglegri heldur af því að hann færði lögheimili peninganna sinna. Hann vill ekki viðurkenna að hann búi á sama heimili og þeir. Svona eins og sambýlisfólk sem skráir sig í sundur til að fá meiri bætur.

— Hver eru áhrifin af tilvist skattaskjóla og hverjir eru að njóta þeirra? Það eru mjög fáir. Skattaskjól eru ein stærsta ástæða þess afhverju hinir ríku verða ríkari (í fyrra, árið 2015, áttu 65 ríkustu einstaklingarnir jafn mikið og helmingur jarðarbúa samanlagt. Árið 2010 þurfti 388 ríkustu í heimi til)

Auglýsing

læk

Instagram