Boraði einhver í nefið í dag?

Börn eru yndisleg. Svona oftast allavegana. En það verður seint sagt að þau séu miklir samræðusnillingar. Dætur mínar eru gríðarlega hæfileikaríkar í að spyrja óteljandi spurninga, helst þegar ég er í miðju samtali við einhvern annan, öskra hvor á aðra, tuða og auðvitað skipa mér fyrir. Þær eru líka bærilegar í einræðum þegar þannig liggur á þeim en það er sjaldan sem okkur tekst að ná innihaldsríku og góðu samtali. Og þegar þær eru spurðar beinna spurninga er fátt um svör, stundum kjósa þær að láta eins og þær heyri ekki í mér og ef mér tekst með herkjum að toga svarið út, þá er það oftast eins orða svar. Svörin sem eru stöðluð eru eftirfarandi: „Já“, „nei“, „gaman“ og að lokum „leiðinlegt“. Hver þarf fleiri orð? Þetta er allt spurning um mínimalískan lífsstíl. Það er eins og þær hafi fylgt ráðum japanska tiltektargúrúsins og minnkað allan óþarfa í tilsvörum. Ég sæki þær í skólann, spyr hvernig dagurinn þeirra hafi verið og fæ eitt af tveimur svörum: „gaman“ eða „leiðinlegt“. Reyni ég að garfa nánar í málinu kemur orðið sem ég elska að hata: „bara“.

En áður en ég skrifa þetta alfarið á þær og gefst upp hef ég safnað saman spurningalista sem ég er að vonast til að virki hvetjandi á þær og muni kveikja á innihaldsríkara samtali.

Prófið þið endilega líka!

30 hugmyndir að því sem þú getur spurt barnið þitt að eftir skóla:

  1. Hvað borðaðirðu í hádeginu?
  2. Hvað var það fyndnasta sem þú heyrðir í dag?
  3. Hvað var það skrítnasta sem þú lærðir í dag?
  4. Sástu einhvern bora í nefið?
  5. Ef einhver í bekknum þínum fengi að vera kennarinn og ráða öllu í heilan dag, hvern myndir þú þá velja til að kenna?
  6. Hvaða reglu leggur kennarinn þinn mesta áherslu á?
  7. Gerðirðu eitthvað fallegt fyrir einhvern í dag?
  8. Lærðirðu eitthvað nýtt í dag?
  9. Hvað kom þér mest á óvart í dag?
  10. Er einhver nýr sem þú ert ekki enn búin að leika við sem þig langar að leika við?
  11. Hvað myndir þú kenna krökkunum ef þú fengir að vera kennarinn í einn dag?
  12. Hvað var það erfiðasta sem þú lærðir í skólanum í dag?
  13. Gekk illa hjá einhverjum í dag? Af hverju?
  14. Hvað lærðirðu í dag sem þig langar að læra meira um?
  15. Við hliðina á hverjum sastu í hádegismatnum?
  16. Við hvern lékstu í frímínútum?
  17. Segðu mér frá einhverju þrennu sem þú notaðir blýantinn þinn til að leysa í dag?
  18. Hvað er skrítnasta orðið sem þú heyrðir í dag?
  19. Ef þú mættir skipta um sæti við hvern sem er í bekknum, við hvern myndirðu skipta og af hverju?
  20. Hjálpaðir þú einhverjum í dag?
  21. Hjálpaði þér einhver ?
  22. Er eitthvað sem þú myndir vilja sleppa að læra í skólanum?
  23. Hver er sniðugastur í bekknum þínum? Af hverju?
  24. Geturðu nefnt mér þrjár manneskjur sem þú talaðir við í skólanum í dag?
  25. Ef þú mættir velja hvað yrði í hádegismat í skólanum á morgun, hvað yrði það þá?
  26. Er eitthvað sem þú myndir gera öðruvísi á morgun?
  27. Hvað vilt þú að gerist í skólanum á morgun?
  28. Ef þú mættir kenna krökkunum í skólanum eitthvað, hvað myndir þú vilja sýna þeim eða kenna?
  29. Hver brosir mest í skólanum?
  30. Ef þú mættir mála skólann alveg upp á nýtt, hvernig yrði hann þá á litinn?
Auglýsing

læk

Instagram