Ég er að búa þig til! Eiginlega alveg óvart og kannski er ég smá að klúðra þessu

„Ég er klár, ég er sterk, ég legg mig fram …. “ Lítil stúlka í fangi föður síns endurtekur þessar fullyrðingar hátt og snjallt fyrir framan spegil og internetið fer á hliðina. Svo einfalt, svo áhrifaríkt. Vonandi hafa þessar 17 milljónir áhorfa mögnuð áhrif á uppeldi komandi kynslóða.

Það fer fram lævís forritun hjá okkur öllum sem tölum um börn. Við erum sífellt að endursegja tilvist þeirra – í þeirra eigin eyru og annarra. Við stimplum þau sem svona og hinsegin, klifum á ágæti þeirra, persónueinkennum og kostum og kannski löstum. Við mótum þau viljandi/óviljandi með orðum okkar:

Hann er svolítið feiminn þessi …
Hún er mjög viljasterk og ákveðin …
Hún er alltaf á fullu …
Hann er alltaf svo kátur ..
Hún er svo sæt …
Hún er svo mikil dúlla …
Hún er svo …
Hann er svo duglegur …
Hann er mikill mömmustrákur …
Hann er svo fljótur til …
Hann er svo …

Skiljanlega viljum við kynna börnin til leiks, þegar þau eru ómálga og þessi óskrifuðu blöð sem bara við foreldrarnir þekkjum. Það er í okkar verkahring að miðla fyrir þau, segja deili á þeim og slíkt. Svo líður tíminn – og við höldum áfram að segja fréttir af börnunum okkar en mögulega pælum við sjaldnast í því hvernig við tölum um þau. Ég gef mér að meirihluti foreldra tali afar fallega og uppbyggilega um börnin sín … sér í lagi þegar þau heyra til. Við kunnum alveg að vanda okkur.

En endurtekning er magnað fyrirbrigði. Sjáið bara hvað klifun getur gert við kjósendur í Ameríku. Persónuleiki okkar verður máski að hluta til í þeim sögum sem við og aðrir segjum … aftur og aftur. Hann mótast af því sem við heyrum, klifum á, öpum eftir öðrum og því sem við trúum að sé satt eða í það minnsta sannast um okkur sjálf.

Það sem gerist er mögulega annað af tvennu. Barnið getur gengist upp í þessum sögum og skýringum foreldra sinna eða farið í algjöra uppreisn gegn þeim. Eða bæði, í bland. Það er líklegast. Hugsið bara til þess hvernig var talað um ykkur sem börn og áhrif þess á ykkar eigin breytni og sjálfsmynd.

Hvaða sögu segir þú oftast af þínu barni?
Hversu margir heyra af tilsvörum þess, viðbrögðum, árangri eða erfiðleikum og í hvaða ljósi? Hvernig vilt þú að barnið þitt tali um sig sjálft?

 

Nútímaforeldrar eru líka á Facebook.
Lækaðu ef þér líkar síðan okkar og þá missir þú ekki af neinu.

Auglýsing

læk

Instagram