Ég þekki þig ekki, en mér líkar ekkert sérstaklega vel við þig

Kæri faðir buffsins
Þú átt gott hr. Rojas. Þú rambaðir, með staðfestu þinni og hugvitssemi á algjöra gullnámu. Til hamingju með 25 ára afmæli buffsins, þessa fáránlega höfuðfats sem þú fannst upp á, megi það áfram skýla ungum og öldnum út um allan heim hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Verandi næmur maður þá greinir þú ef til vill að ég tilheyri síðarnefnda hópnum. Ég þoli ekki buffið þitt. Ég er með buffóþol á háu stigi, svo mjög að ég hef fordjarfað einum átta á þeim skamma tíma sem ég hef kallast móðir og suma daga þá kippi ég buffum að börnum annarra foreldra líka. Hvað er að því að vera bara með húfu!?! Þurfa öll málsmetandi fyrirtæki og stofnanir að gefa börnum lógómerktar höfuðtuskur?!?

Ég veit allt um hversu praktískt buffið er; undir hjálma, til varnar lúsum, þegar farið er í feluleiki og sem sítt hár í þykjustunni þegar maður er stutthærður. En þetta er bara svo herfilega ljótt hr. Rojas! Sérðu ekki hvað þú hefur kallað yfir okkur? Óraði þig fyrir þessu daginn þegar þú fórst með prótótýpuna af haglega hannaða höfuðtuskusmokkinum þínum upp í fjöllin þar sem þú brunar um á mótorhjólinu þínu? Þetta sem kannski átti að vera svalur umbúnaður fyrir ykkur töffarana á Spáni hefur tröllriðið veröldinni og rekið fleyg á milli fjölskyldna. Þú ert annað hvort með eða á móti buffum.

Ég hugsa oft til þín. Alltaf þegar ég nálgast buff-sölustand þá píri ég augun og hugsa um þig og auðæfi þessa viðskiptaveldis sem er vörumerkið BUFF. Jájá, þetta er brilljant en fólk er almennt ekki að ná þessu eða nenna. Rannsóknir mínar benda til þess að 99% buffnotenda séu börn á aldrinum 2-12 ára og þau eru ekkert að flækja þetta – þau bara troða hausinum inn um annan endann og láta hinn lufsast aftan á hnakkanum. Þeim finnst það bara töff. Sama þó það sé hægt að nota buff á milljón vegu þá er lufsulúkkið það eina sem þau vilja.

Sé fagurfræði þinni líka misboðið hr. Rojas þá vona ég að þú iðrist ögn.
Ekki finna upp neitt fleira. Þú hefur fært veröldinni nóg.

Með kveðju
-buffhatandi móðir í Norðurmýrinni

PS:
Fyrir þá sem vilja læra að nota buff á fjölbreyttari hátt.
Fyrir spænskumælandi áhugafólk um sögu buffsins þá er hér viðtal við Rojas.

Auglýsing

læk

Instagram