Er kaupadagur í dag? Hér er einföld leið til að díla við suð og innkaupaþörf hjá ungum krökkum

Það getur reynt á taugarnar að vera í samneyti við börn sem fatta að það er hægt að kaupa hluti. Þau suða. Og þau geta sum vafið manni um fingur sér, spilað á samviskubit okkar, þekkt veikleika og röksemdir og hreinlega ært okkur foreldra með staðfestu sinni. Því það er eitthvað dót alls staðar. Ég hef áður skrifað um ofurneytandann í minni fjölskyldu en nú blæs ögn billegar hjá mér því við mæðgur höfum í sameiningu þróað nýja aðferð til þess að díla við búðarferðir.

Það er annað hvort skoðunardagur eða kaupadagur.

Oftast er skoðunardagur. Og þá virkar búðarferðin þannig að 4 ára kaupalkinn fær að hafa símann minn (já, ekki mjög ábyrgt) til að taka myndir af því sem henni finnst spennandi. Ég sýni annars fjarrænan áhuga og passa að hún villist ekki of langt frá mér eða símtækinu. Hún er meðvituð um að við munum ekki kaupa neitt af þessu dóti fyrir hana þennan daginn. En hún fær að spökulera, fantasera og pæla að vild, og eiga hlutdeild í dótinu með því að taka myndirnar. Ég tek fram að það er ekki oft sem ég mæti viljandi með dóttur minni í verslanir, en þessi leið hefur reynst okkur virkilega vel.

Oft vill hún skoða myndirnar seinna og ræða um eitt og annað, aðallega pónýhesta og plastarmbönd og kostnað. Nú er komin talsvert betri kostnaðarvitund í barnið. Því stundum er kaupadagur. Og það er ákveðið með góðum fyrirvara. Þá er rætt um hvað eigi að kaupa áður en við förum aftur í búðina. Þá er hún sjálf búin að vega og meta hvað væri skemmtilegast að eignast og af hverju. Þetta getur verið algjörlega sprenghlægilegt ferli hjá ungum hugsuðum. En ég held að þetta sé líka mikilvægt.

Á kaupadegi fer hún sjálf að kassanum með innkaupin sín og borgar. Með reiðufé sem hún skilur ekki alveg ennþá, en þetta potast. Hún þarf sjálf að tala við afgreiðslufólkið og halda á dótinu heim. Og hún er massastolt og kát, þó hún almennt leiki sér ekki með dótið (draslið) sitt í nema rétt svo 7-8 mínútur.

En, þetta virkar ennþá fyrir okkur. Þetta minnkar suðstreituna og samningaviðræðurnar. Og kannski verður hún einhvern tíma yfirmáta hagsýnn og ábyrgur neytandi, með þetta thing fyrir glimmeri og einhyrningum.


Nútímaforeldrar eru líka á Facebook
.
Lækaðu ef þér líkar síðan okkar og þá missir þú ekki af neinu.
Lumar þú á fleiri ráðum? Deildu þeim endilega með okkur. 

Auglýsing

læk

Instagram