Skiptir það máli í hvaða skóla barnið fer?

Auglýsing

Ég dæmi fólk út frá bókahillunum þeirra. Svo játi það nú strax það að dómgreindin mín er mögulega dálítið grunn og skeikul að ýmsu leyti. Samt nota ég hana á hverjum degi. Ég þarf að nota hana fyrir hönd barnanna minna og þá reyni ég að vanda mig. En það er ekkert alltaf auðvelt.

Þegar kemur að því að velja skóla fyrir barn fer fólk í mjög mismunandi stellingar. Fyrir suma er ákvörðunin um að velja leik- eða grunnskólann sem er styst frá heimilinu, algjörlega sjálfsögð. Fyrir aðra krefst það mikillar yfirlegu og pælinga að taka slíka ákvörðun. Við erum misjöfn og þar af leiðandi er forgangsröðunin okkar ólík.

Eitt sem spilað getur inn í er okkar eigin upplifun og reynsla af skólakerfinu sem var við líði fyrir 20-30 árum síðan. Það er ekkert lógískt við það að leggja sömu mælistiku á menntakerfið nú en við gerum það samt stundum.

Svo hvernig velur maður skóla fyrir barnið sitt? … Þar sem það er á annað borð í boði.

NB. Sjálf fór ég ekki í leikskóla (þess vegna get ég ekki föndrað eða notað skæri), og það voru innan við 20 nemendur í grunnskólanum sem ég gekk í. Það var bara einn skóli í boði alla mína skólagöngu svo nú er ég aðeins að fríka út á möguleikunum, sem ég næ samt ekki að sundurgreina nógu vel.

Auglýsing

Leiðir okkar foreldra til þess að kynnast þessum mikilvægu stofnunum, sem eru mismunandi skólar sem geta að menntað og þroskað börnin okkar, eru takmarkaðar. Upplýsingaleiðirnar eru raunar bara þrjár; orðspor skólans í gegnum vini/ættingja/samstarfsfólk, heimasíða skólans og/eða heimsókn þangað.

Þetta getur verið stór ákvörðun að taka því skólar eru ólíkir, þrátt fyrir að námskráin sé sameiginleg þá eru áherslur þeirra, styrkleikar og vandamál ólík. En við tölum eiginlega aldrei um það. Tilfinningin út á við er meira eins og allir skólar séu eins og þar af leiðandi jafn góðir. Svo hvernig eigum við að taka góðar ákvarðanir um val skólum, og þar með um menntun barnanna okkar?

Af því að ég er sjálf á þessum buxum að pæla í skólum fyrir börnin mín þá tók ég saman lista yfir það sem skiptir mig mestu máli sem foreldri og skattgreiðanda. Listinn er ekki tæmandi, þetta er bara það helsta. Ég veit að þið hafið takmarkaðan tíma, þið eruð foreldrar.

Ég myndi vilja vita:

 • Hvernig líður kennurunum í vinnunni?
 • Hvernig yfirmaður er skólastjórinn og hvernig líður honum?
 • Hvernig er líðan barnanna í skólanum, og hvernig er hún mæld?
 • Hvernig mælir skólinn árangur sinn?
 • Hversu öflug og virk stoðþjónusta er til staðar (sérkennsla, hjúkrunarfræðingur, sálfræðingur, námsráðgjöf, bókasafn)?
 • Hvernig bregst skólinn við gagnrýni, áskorunum og breytingum?
 • Hverjar eru áherslur skólans í kennslu utan hefðbundinna bóknámsgreina?
 • Hvernig maturinn?
 • Hvernig er aðstaða til hreyfingar úti og inni?
 • Hverjar eru áherslur skólans í kaupum á kennslugögnum, bókum og búnaði?
 • Hverjar eru hefðirnar í skólanum?
 • Til hvers er ætlast af foreldrum og aðstandendum?
 • Hvernig er félagslífið og á hvers ábyrgð er það?
 • Hvenær eru starfs- og frídagar á skólaárinu og hvernig eru þeir nýttir?
 • Hvernig er upplýsingagjöf um starf skólans háttað?

Ég er einlæglega áhugasöm um þetta því mér finnst þetta skipta máli. En þetta er ekki eitthvað sem ég heyri mikið talað um. Og þetta eru ekki upplýsingar sem beinlínis liggja á lausu. Því eitt er að lesa eitthvað á gamalli heimasíðu og annað að sannreyna það. Mér finnst að foreldrar ættu að pæla sjúklega mikið skólamálum og láta sig þau varða. Ég held að það myndi gleðja og fylla skólafólk eldmóði og metnaði. Og það myndi mögulega skila sér í meiri framförum í skólastarfi. Og þá gætum við kannski oftar heyrt jákvæðar fréttir um menntamál á Íslandi.

Nútímaforeldrar eru líka á Facebook.
Lækaðu ef þér líkar síðan okkar og þá missir þú ekki af neinu.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram