Það er allt í lagi að leiðast stundum

Um daginn settumst við niður í brunch á veitingastað í bænum. Við stelpurnar með ömmunni, afanum og frændanum. Hugguleg sunnudagsstund. En við vorum ekki fyrr sestar niður en þær kröfðust þess að fá lánaða snjallsímana okkar, því þetta væri hundleiðinlegt. Samt var þjónustustúlkan mætt á svæðið með litabækur og liti fyrir þær. Ég skal alveg játa það á mig að ég hef ákveðna hentirekistefnu þegar kemur að snjalltækjum, sjónvörpum og öðru. Þegar það passar mér að láta tækin passa þær þá er allt leyfilegt, þetta er oftast þegar foreldrabugun er í hámarki. En að foreldrabugun lokinni er næsta víst að foreldrasamviskubitið kemur á eftir. Og þá set ég markið á að vera fyrirmyndarforeldri sem heldur öllu slíku í lágmarki. Og sá metnaður greip mig þarna og ég setti blákalt straff við tækjanotkun. Greip í staðinn þá klassísku leið að segja þeim frá mínu ungdæmi og hvernig við máttum þjást þá, hversu mjög okkur gat nú leiðst án þess að nokkur hefði fyrir því að koma með liti og litabók fyrir okkur. Það var ekki einu sinni sjónvarp á fimmtudögum og Föstudagurinn langi var sem helvíti því þá mátti ekki gera neitt, manni átti bara að leiðast, sama hvað. Þetta er ástæða þess afhverju ég gerðist lestrarhestur, þannig gat ég séð við leiðindunum og dröslaði ég þaðan í frá bók með mér hvert sem ég fór!

En þarna rann það upp fyrir mér að dætrum mínum leiðist aldrei. Þær glíma ekki við sama vandamál og ég gerði á þeirra aldri, barnatíminn var takmörkuð auðlind sem aðeins bauðst á ákveðnum tímum. Þær hafa aðgang að Netflix og barnaefninu þar allan sólarhringinn. Ef það heillar ekki grípa þær í Youtube og bregðist það þá eru það leikirnir sem koma sterkir inn. (Auðvitað bara þegar þær hafa aðgang að skjá sem er að sjálfsögðu sjaldan því ég er fyrirmyndarforeldri *hóst*).

Það hlýtur samt að vera nauðsynlegur hluti af þroskaferli barna að leiðast því það er á þeirri stundu sem ímyndunarafl þeirra hrekkur í gírinn og þær fara að þróa leiðir til að eyða leiðindunum. Slík dásemdarstund átti sér stað í morgun. Það er mjög stíf regla á virkum morgnum hvað varðar tæki. Þeim leiddist meðan þær biðu eftir að ég kláraði að sturta mig og mála. Hvað gerðu þær? Sú eldri var mamman og sú yngri dóttirin og þær voru að undirbúa sig fyrir skólann. Mjög raunsæislegt allt saman. Mér brá þó nokkuð þegar sú yngri ásakði „móður“ sína um að gleyma alltaf afmælisdeginum hennar, ég er handviss um að það hafi aldrei gerst…

Sú eldri hefur svo tekið upp á því að föndra sér sín eigin raftæki og á nú fjöldann allan af símum og tölvum sem hún malar í öllum stundum við ímyndaða vini.

Það leynast nefninlega töfrar í því að leiðast. Það er þá sem það kemur sér vel að vera uppátækjasamur. 

Hér er listi yfir hluti sem ég fann upp á í leiðindum barnæskunnar:

 • Las endalaust mikið. Sérstaklega minnistætt þegar mér leiddist svakalega var að liggja á gólfinu á stofunni heima með Öldina okkar og lesa þar sannar og æsispennandi fréttir. Þar komst ég að því að morð voru ekki bara í amerískum bíómyndum og að skemmtanagildi fortíðarinnar var stundum óumdeilanlegt
 • Spilaði myllu við pabba/mömmu/bræður mína
 • Teiknaði
 • Uppgötvaði leyndardóma Gamla kirkjugarðarins
 • Skrifaði í dagbókina mína
 • Falsaði leyfisbréf frá foreldrum mínum og fékk mér kettling
 • Sýndi sirkus á svölunum heima sem endaði með vatnsblöðrubombunum á gangandi vegfarendur
 • „Fann“ pening og keypti mér nammi
 • Gramsaði í öllum hirslum og skúffum í leit að einhverju skemmtilegu eða forvitnilegu
 • Klæddi köttinn upp í dúkkufötin
 • Tók strætó í vinnuna til pabba, lét hann kaupa sér frið með aur fyrir nammi
 • Pesteraði bræður mína þar til saman við urðum það óþolandi að mamma og pabbi fundu okkur eitthvað að gera
 • Stofnaði ræningjaklúbb
 • Gróf tímahylki
 • Tók hjólatúr upp í Heiðmörk
 • Safnaði dósum héðan og þaðan, fara með og kaupa mér nammi
 • Gerðist spilafíkill með klinki sem tæknilega tilheyrði einhverjum öðrum í spilakössunum (þá var ekki komið aldurstakmark á kassana)
 • Málaði á vegg heima hjá vinum foreldranna
 • Klippti hárið á mér sjálf

Sumir gætu litið á þennan lista og aukið stórlega við skjátíma barnanna sinna en ég held að það sé nauðsynlegt fyrir krakka að rasa aðeins út, koma sér í hæfilega mikið af vandræðum, það er þannig sem maður lærir eins mikið og hægt er á þessum árum. Þetta var valdefeflandi fyrir mig, ég fékk tækifæri til að feta minn eigin veg, spreyta mig aðeins á lífinu án þess að foreldrar mínir önduðu ofan í hálsmálið á mér.

Svo slökkvið á sjónvarpinu, fjarlægið raftækin og skoðið hverju krakkarnir ykkar geta fundið upp á þegar engin hefðbundin afþreying er í boði.

Auglýsing

læk

Instagram