Það er ekkert partý, engin dagdrykkja né útsofelsi. Og gleymdu þessari bók

Veruleikinn var að hringja og bað mig að skila eftirfarandi til foreldra sem máski eru búnir að gleyma þessum grjóthörðu staðreyndum, því það er svo langt síðan þeir komust í frí. Þessi samantekt er byggð á eigindlegri rannsókn þar sem úrtakið var smánarlega lítið og á köflum óáreiðanlegt sökum skoðanagleði.

  1. Svefn eða hvíld er hverfandi

    Maður sefur ekki út ef börnin eru með.

  2. Samgöngur sökka

    Flugferðin/bílferðin/samgöngurnar almennt snúast fremur um krísustjórnun, sáttamiðlun og þöggun heldur en slökun, skens eða dagdrykkju.

  3. Það er engin dagdrykkja

    Nei, það er engin dagdrykkja.

  4. Það þarf að plana allt

    Það er ekkert óskipulagt kynlíf.

  5. Það er ekkert partý

    Nema ef vera skyldi danspartý til þess að losa um orku og þá er það Glaðasti hundur í heimi en ekkert dub eða deep house.

  6. Enginn tími til að lesa

    Maður hefur ekkert andrúm til þess. Nema þá kannski eina og eina barnabók.

  7. Enginn voyör

    Maður hefur ekki andrúm til þess að ástunda túrista-gláp (sem er eitt af aðaláhugamálum mínum á ferðalögum. Ég sit bak við sólgleraugun og fylgist skammlaust með heimamönnum stússa sitt daglega stúss og ímynda mér hvernig lífi þeir lifa).

  8. Pirringur er algengur

    Börn í óreglu (sem fylgir ferðalögum) eru ALLTAF þreytt, svöng eða bæði. Nema þegar þau eru pirruð og þá viðurkenna þau náttúrulega ekki að þau séu þreytt eða svöng. Pirruð börn viðurkenna nákvæmlega ekki neitt.

  9. Suðkostnaður

    Suðarar þrí- og fjóreflast í fríum. Það er allt í einu svo margt nýtt sem hægt er að biðja um. Og þau skynja vel minnstu veikleika foreldra sinna sem máski eru sunnan-við-sig, uppteknir eða hálfsofandi. Þess vegna geta frí orðið dýr.

En þetta er allt þess virði. Því þegar maður hangir með börnunum sínum þá smitast efsta stigið yfir til okkar. Þegar það er gaman þá er svo ótrúlega mikið gaman. Og allt skemmtilegt verður svoooo miklu skemmtilegra. Og maður veit að þó blessuð rassgötin kunni ekkert að meta eða þakka manni fyrir þetta fjör sem þau upplifa þá og þegar mun reynslan fara inn á harða drifið hjá þeim og maður getur í það minnsta sýnt þeim myndirnar seinna og sagt með stolti:. „Manstu ekki hvað það var ógeðslega gaman hjá okkur!“

Svo kemur maður örþreyttur heim og það var samt frábært.

Auglýsing

læk

Instagram