„Mikil vonbrigði að komast ekki á CrossFit-leikana.“—SKE spjallar við Þuríði Helgadóttur (myndband)

SKE Sport

Nýverið kíkti SKE í heimsókn í CrossFit Sport í Kópavogi og þá í því augnamiði að ræða við CrossFit-konuna Þuríði Erlu Helgadóttur (sjá hér að ofan) en heimsóknin var liður í myndbandsseríunni SKE Sport þar sem lista- og íþróttafólk svara nokkrum viðeigandi spurningum á meðan á æfingum þeirra stendur.

Þuríður Erla hefur stundað CrossFit frá árinu 2010 og hefur yfirleitt keppt á CrossFit-leikunum en um er að ræða eiginlegt heimsmeistaramót CrossFit sem fer fram ár hvert í Bandaríkjunum. Í ár komst Þuríður Erla hins vegar ekki á leikana en hún hafnaði í 8. sæti Evrópukeppninnar (aðeins fimm efstu komast á leikana). 

Líkt og fram kemur í viðtalinu voru þetta mikil vonbrigði—en er Þuríður þó staðráðin í því að mæta tvíefld til leiks á næsta ári:

„Já, það voru mjög mikil vonbrigði. Ég hef eiginlega farið á heimsleikana á hverju einasta ári frá því að ég byrjaði. Ég hef tvisvar farið með liði en annars sem einstaklingur. Ég komst ekki 2013—þannig að þetta er annað árið sem ég fer ekki á heimsleikana síðan að ég byrjaði í CrossFit, sem er mjög leiðinlegt. En (þetta) kveikir bara enn meiri vilja að komast á næsta ári. “

– Þuríður Erla Helgadóttir

CrossFit-leikarnir fara fram dagana 1. til 5. ágúst í Madison, Wisconsin. Keppa þær Sara Sigmundsdóttir, Katrín Tanja Davíðsdóttir og Annie Mist Þórisdóttir á leikunum í ár. 

Auglýsing

læk

Instagram