Secret Solstice 2018 upphitun #2—J.I.D.

Auglýsing

Fréttir

Næstkomandi laugardag (25. júní) stígur rapparinn J.I.D. á svið á tónlistarhátíðinni Secret Solstice í Laugardalnum—en það má með sönnu segja að glás af hæfileikaríku tónlistarfólki stígi á svið á hátíðinni í ár, þar á meðal Stormzy, Steve Aoki, Bonnie Tyler, Gucci Mane, GoldLink, o.fl. 

Til þess að hita upp fyrir hátíðina tók SKE saman nokkrar staðreyndir um fyrrnefndan J.I.D. en hann hefur lengi vel verið í uppáhaldi hjá starfsfólki þessa auðmjúka snepils.

#1 J.I.D. heitir réttu nafni Destin Route og kemur frá Atlanta

Auglýsing

Destin Route fæddist þann 31. október 1990 og er því 27 ára gamall. Route ólst upp í borginni Atlanta í Georgíu fylki og er hann yngstur sjö systkina. Á unglingsárunum þótti Route skara fram úr á sviði bandarísks ruðnings og fékk hann styrk til þess að nema við Hampton háskólann í Virgíníu þar sem hann lagði athafnamennsku 
(“entrepreneurship”) fyrir sig—áður en honum var vísað úr skólanum.

#2 Vinsælasta lag J.I.D. er “Never”

Lagið Never er að finna á plötunni The Never Story sem kom út í fyrra. Lagið naut þó nokkurra vinsælda hér á landi og var meðal annars í 18. sæti árslista útvarpsþáttarins Kronik. Var það jafnframt í miklu uppáhaldi meðal umsjónarmanna þáttarins. Lagið er tvískipt: síðari hluti lagsins, sem þykir býsna dáleiðandi, hefst ca. 03:00 (sjá hér að neðan). Frá því að myndbandið við lagið kom út hefur það verið skoðað rúmlega 4 milljón sinnum á Youtube.

Árslisti Kronik: https://ske.is/grein/arslisti-k…

#3 J.I.D. fjármagnaði tónlistarferilinn með því að vinna fyrir sér sem pizzasendill

Nafnið J.I.D. á rætur að rekja til viðurnefnis sem amma rapparans gaf honum sem barn, en viðurnefnið sprettur frá órólegri hegðun rapparans: jittery (taugaóstyrkur). Fyrsta mixteip J.I.D., Route of All Evil, gaf hann út 25. júní, 2012 og samkvæmt Wikipedia fjármagnaði hann útgáfu plötunnar með því að vinna fyrir sér sem starsmaður símavers annars vegar og sem pizzasendill hins vegar. 

#4 J.I.D. er á mála hjá Dreamville plötufyrirtækinu, sem rapparinn J. Cole stofnaði.

J.I.D. var sjöundi listamaðurinn sem undirritaði plötusamning hjá fyrirtækinu Dreamville. Á meðal listamanna Dreamville eru J. Cole, Bas, EarthGang (sem einnig koma fram á Secret Solstice í ár), Ari Lennox, Cozz, Lute, Omen og Elite. 

#5 Meðal áhrifavalda rapparans er sænska rafhljómsveitin Little Dragon

Tónlistarsmekkur J.I.D. er ansi fjölbreyttur en fyrstu kynni rapparans á tónlist var í gegnum plötusafn foreldra sinna sem samanstóð mest megnis af fönk- og sálartónlist. Meðal áhrifavalda J.I.D. er bandaríska rappsveitin Wu-Tang Clan, fönksveitin Sly and the Family Stone, söngvarinn D’Angelo og sænska rafsveitin Little Dragon. 

#6 J.I.D. er í busabekk tímaritsins XXL í ár

Einu sinni á ári útnefnir tímaritið XXL bestu nýliða bandarísku rappsenunnar. Í ár var J.I.D. útnefndur ásamt WifisFuneral, Smokepurpp, Trippie Redd, Stefflon Don, Ski Mask the Slump God, YBN Nahmir og Lil Pump. Eru margir á því að J.I.D. sé besti rapparinn í busabekknum.

#7 Líklegt þykir að J.I.D. flytji lagið “Meditate” ásamt EarthGang á Solstice

Lagið Meditate sem hljómsveitin EarthGang gaf út í samstarfi við J.I.D. hefur notið mikilla vinsælda frá því að það kom út í fyrra. Erindi J.I.D. í laginu er ótrúlega lipurt en í ljósi þess að EarthGang stígur á svið á undan J.I.D. næstkomandi laugardag verður það að teljast líklegt að lagið Meditate verði flutt.  

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram