Æskudraumur Margrétar Maack rættist þegar hún varð rödd KFC á Íslandi: „Ég varð mjög æst“

Einn af æskudraumum Margrétar Erlu Maack, fjölmiðlakonu og sirkúsdrottningar, rættist á dögunum þegar hún fékk það verkefni að vera rödd KFC á Íslandi. Rödd Margrétar hljómar því hér eftir þegar gómsætir kjúklingabitar verða auglýstir á öldum ljósvakans á næstunni.

Margrét er mikill unnandi kjúklingsins frá KFC og hefur barist fyrir því að fá veitingastað í miðborg Reykjavíkur með því að halda úti sérstakri Facebook-síðu.

„Ég var mjög lengi að vinna með að borða bara húðina alveg til 11 ára aldurs,“ segir hún í samtali við Nútímann. „Ég hélt upp á 12 ára afmælið mitt á KFC á Selfossi —gamla staðnum. Svo það var bara tímaspursmál hvenær kallið frá körnelnum kæmi.“

En hvernig kom starfið til?

„Á afmælinu mínu 25. apríl gaf Jói B mér afmælisgjöf að bjóða mér í prufu fyrir það að verða KFC röddin,“ segir Margrét.

Ég varð mjög æst. Ég hafði samband við nokkra vini og frændfólk í raddarbransanum eftir prufuna um svona hvernig ég ætti að prísa mig ef ég fengi þetta og fyrstu viðbrögð allra voru: „Ekki fá borgað í kjúklingi, Margrét mín.“

Hún var svo stödd að eigin sögn í cava-vímuá sundlaugarbakka á Spáni í síðustu viku þegar hún fékk fréttirnar um að hún hefði verið ráðin. „Svo dettur þetta inn á besta tíma — eitt af fyrstu giggunum er júróvisjóntilboð á hotwings,“ segir Margrét lauflétt.

Starfið virðist sérsniðið fyrir Margréti þar sem hún er úr mikilli raddafjölskyldu. „Egill móðurbróðir minn er svo rödd Toyota, Hinrik hinn bróðir hennar er íslenskt grænmeti og Óli frændi er Víkingalottóið og Vörður, svo þetta er í blóðinu,“ segir hún.

Auglýsing

læk

Instagram