Snyrtivörurnar frá Dior kveðja klakann: „Enginn umboðsaðili til í að halda merkinu gangandi á Íslandi“

Viðskiptavinir í snyrtuvörudeildinni í Hagkaup ráku upp stór augu í vikunni þegar þeir tóku eftir skilti þar sem tilkynnt er að verslunin sé að hætta að selja snyrtivörur frá Dior. Nútíminn kannaði málið og komst að því að snyrtivörur frá Dior eru ekki lengur fluttar inn til landsins.

Dyggur lesandi Nútímans var með böggum hildar þegar hann sagði blaðamanni fréttirnar. Sigmundur Kristjánsson, markaðsstjóri heildsölunnar Halldór Jónsson ehf. staðfestir í samtali við Nútímann búið sé að segja upp samningnum við vörumerkið. Spurður út í ástæðuna fyrir því er Sigmundur þögull sem gröfin.

„Maður hefur heyrt að margar dyggar Dior konur séu leiðar yfir þessu,“ segir hann og blæs á orðróm um að smæð markaðarins hafi orðið til þess að Dior sagði bless.

Vörurnar hafa verið vinsælar á markaðinum en það er ekki lengur samningur á milli okkar. Ég veit að þeir höfðu samband við aðra aðila hér á landi. Eftir því sem ég best veit er að enginn annar umboðsaðili til í að halda merkinu gangandi á Íslandi.

Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa, segir að á meðan enginn umboðsaðili sé fyrir Dior á Íslandi þá séu snyrtivörurnar ekki seldar í verslunum fyrirtækisins. Hann segir að þetta sé mikill missir fyrir Hagkaup. „Þetta er stórt vörumerki og við viljum bjóða viðskiptavinum okkar upp á sem fjölbreyttasta úrvalið.“

Auglýsing

læk

Instagram