Oprah hefur ekki fengið skilaboð frá Guði um að bjóða sig fram eins og Eyþór Arnalds

Spjallþáttadrottningin og athafnakonan Oprah Winfrey spurði Guð hvort hún ætti að bjóða sig fram til forseta Bandaríkjanna árið 2020. Þetta kom bæði fram í spjalli við hana í tímaritinu People og í kvöldþætti Stephen Colbert. Horfðu á myndbandið hér fyrir neðan.

Íslendingar þekkja þessa aðferð vel en í viðtali á Omega í síðustu viku sagðist Eyþór Arnalds hafa beðið Guð um styrk til að segja nei við ósk um að hann myndi bjóða sig fram sem oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Sjá einnig: Nokkur yfirnáttúruleg brot úr viðtalinu við Eyþór Arnalds á Omega

„Ég vissi að þetta væri mikið verk. Þannig að ég bað Guð að gefa mér styrk að segja nei, því margir voru að biðja mig um að fara í þetta. En á endanum, þá fór það öðruvísi, og sagt er nú að vegir Guðs séu órannsakanlegir, og hann, í rauninni kannski, vildi að þetta færi á hinn veginn. Minn vilji fékk ekki að ráða. Og nú er ég hér,“ sagði Eyþór.

Í viðtali við Oprah í tímaritinu People segist hún hafa beitt svipaðri aðferð: „Guð, ef þér finnst að ég eigi að bjóða mig fram þá verðurðu að segja mér það. Gefðu mér merki sem er svo skýrt að ég get ekki annað en tekið eftir því,“ sagði hún.

Eyþór Arnalds mætti svo í útvarpsþáttinn Harmageddon og dró í land með afskipti Guðs af framboði sínu. Í viðtali hjá Stephen Colbert gaf Oprah hins vegar í, staðfesti orð sín í viðtalinu við People og sagðist vera í snertingu við Guð og rödd hans. Hún bætti hins vegar við að æðri máttarvöld hafi ekki gefið henni eitt merki um að fara í framboð.

Auglýsing

læk

Instagram