Dagur tekur sér veikindaleyfi: „Tengist ekki einhverjum fjölmiðlamálum“

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, hefur ákveðið að taka sér nokkra daga frá vinnu í samráði við lækna sína. Alvarleg sýking sem Dagur fékk í kviðarholið síðasta haust hefur tekið sig upp að nýju. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Dagur var settur í viðeigandi meðferð í fyrradag til þess að sýkingin gangi ekki jafnlangt og síðast þegar hún kom upp. Í sumar greindist hann með sjaldgæfan gigtarsjúkdóm í kjöfar sýkingarinnar. Fylgigtin skerðir hreyfigetu hans og getur flakkað á milli liða og lagst á líffæri.

Sjá einnig: Fjölmiðlar eiga erfitt með að ná á Degi B. Eggertssyni: „Hér mætti merkja ákveðið mynstur“

Dagur vonast til þess að verða orðin betri eftir helgina en hann þurfi þó að meta það með læknum sínum. Hann ætli sér ekki í lengra veikindaleyfi að sinni.

„Ég tók þá ákvörðun að ég þyrfti að jafna mig og fékk staðgengla til þess að sinna mínum skyldum á meðan. Ég bý svo vel að eiga góða samstarfsmenn,“ segir Dagur í Fréttablaðinu.

Mikið hefur mætt á Degi vegna Braggamálsins svokallaða en hann segir að í sínu starfi sé alltaf álag. Honum hefur fundist meðferðin við gigtinni ganga vel en hann er á sterkum krabbameinslyfjum til þess að halda henni niðri.

„Þetta núna tengist ekki einhverjum fjölmiðlamálum. Það er verra að vera ekki í hringiðunni þegar svona er,“ segir hann í Fréttablaðinu og bætir við að það séu vonbrigði að í fyrsta sinn sem hann þurfi að taka sér frí, fari strax á loft samsæriskenningar.

Auglýsing

læk

Instagram