Hvenær er best að tala um kynlíf?

Þótt kynlíf krefjist þess að fólk berskjaldi sig að mjög miklu leyti er það engu að síður algengt að pör eigi ákaflega erfitt með að ræða um samlíf sitt. Margt kemur til, óttinn við að særa, skömm vegna langana sinna og iðulega sú tilfinning að eitthvað vanti hjá þér en hinn aðilinn sé með allt á hreinu. En þótt það kunni að vera kvíðvænlegt eru þessi erfiðu samtöl nauðsynleg og ættu að eiga sér stað oft.

Pör sem eiga í góðu líkamlegu sambandi eru hamingjusamari og samstæðari en önnur ef marka má rannsóknir sérfræðinga á þessu sviði. En til þess að tryggja að ánægjan haldist verður að tala um:

Að fullnægingu hafi ekki verið náð
Að þig langi að prófa eitthvað nýtt, breyta til
Að eitthvað sé að, til dæmis risvandamál, leggangaþurrkur, sársauki við samfarir eða lítil kynlöngun
Breytingar á tilfinningum og löngunum
Fjarlægð og þörf fyrir meiri snertingu, samtal og eða rómantík
Höfnunartilfinning vegna lítils áhuga makans
Óttinn við ótímabæra þungun
Notkun getnaðarvarna og spurningin um varnir gegn kynsjúkdómum.
Fullnægingin

Rannsóknir sýna að það er algengt að konur geri sér upp fullnægingu. Það kemur til af mörgum ástæðum, þær vilja ekki særa félaga sinn, vilja efla sjálfstraust hans og láta hann halda að hann geri þetta fyrir þær í hvert sinn sem kynlíf er stundað eða þær finna að það mun ekki gerast í þetta sinn og ákveða því að leika það til að hægt sé að enda hlutina. Karlmenn gera sér einnig upp fullnægingu þótt það sé sjaldnar og ástæðurnar eru svipaðar nema þeir vilja ekki láta á því bera að þeir nái ekki toppnum, óttast að það sýni að karlmennska þeirra fari þverrandi. En hver sem ástæðan er verður að horfast í augu við að verið er að ljúga að þeim sem þú elskar. Það er mun betra að gera sér grein fyrir að kynlíf þarf ekki alltaf og endar ekki alltaf með fullnægingu og mikla ánægju er hægt að hafa af því þótt svo sé ekki. Hreinskilin umræða er svo fyrsta skrefið að því að laga hlutina ef eitthvað stendur í vegi fyrir að báðir njóti.

„Rannsóknir sýna að það er algengt að konur geri sér upp fullnægingu. Það kemur til af mörgum ástæðum, þær vilja ekki særa félaga sinn, vilja efla sjálfstraust hans og láta hann halda að hann geri þetta fyrir þær í hvert sinn sem kynlíf er stundað“

Að finna til

Kynlöngun breytist frá degi til dags og getur meira að segja verið mismikil eftir tíma dags. Það er algengt að hápunktur dagsins sé ekki sá sami hjá aðilum í ástarsambandi, annar í stuði á morgnana og hinn á kvöldin til að mynda. Finnið leiðir til að koma til móts við mismunandi langanir og breytingar á tilfinningalífi eftir æviskeiðum. Ef eitthvað er að sem hamlar eðlilegri nautn í kynlífi er nauðsynlegt að takast á við það strax með hjálp fagfólks. Flest slík vandamál er auðvelt að laga.

Hvenær er best að tala um kynlíf?

Það er staður og stund fyrir allt. Mörg pör ræða saman eftir kynlíf, önnur hvenær sem þau eru ein. Oft getur verið gott að skrifa email eða skilaboð sem koma til skila einhverjum tilteknum löngunum. Þá þarf ekki að horfast í augu við makann ef viðkomandi finnur til feimni. En ef ræða þarf vandamál er gott að velja stað og stund vel. Byrja á því að tala um hvað þér finnst vera jákvætt og gott í kynlífi ykkar og fikra þig síðan að því sem þér finnst að. Aldrei kenna bara öðrum um eða skella óvæginni gagnrýni á bólfélaga þinn. Því oftar sem þið eigið í samræðum af þessu tagi því auðveldara verður það og þið færist nær markmiðinu: Að eiga gott kynlíf.

Þetta var brot úr grein sem finna má í heild sinni á vef Birtings ásamt mörgum öðrum sambærilegum.

Auglýsing

læk

Instagram