Missandi kúlið, sakbitin yfir snjalltækjunum, bölvandi heimanáminu og enn með öll börnin uppí?

Við erum ekki róbótar og ef til væri skriftastóll fyrir foreldra eru líkur á því að játningarnar yrðu einhverjar þessara. Kannast hlustendur við eftirfarandi …

Ég missi kúlið og arga á börnin

Við eigum öll okkar slæmu daga. Við höfum öll óskað þess að til væri takki þar sem hægt væri að spóla til baka og leiðrétta ýmislegt. Galdurinn er að læra af slíkum augnablikum í stað þess að drekkja sér í sjálfsásökunum. Biddu barnið afsökunar þegar þú ferð yfir strikið. Það kennir barninu að enginn er fullkomin/n og við gerum öll mistök. Það kennir þeim líka hvernig þau geta höndlað sín eigin mistök.

Greindu hvað olli því að þú misstir stjórn á þér. Varstu of þreytt/ur? Varstu að reyna að gera of margt í einu? Lagðir þú of seint af stað? Hvað sem það var þá getur þú komið í veg fyrir að það gerist aftur. Þarftu að leggja fyrr af stað? Þarftu að taka frá tíma fyrir sjálfa/n þig? Þarftu að minnka væntingar þínar til þess sem er líffræðilega mögulegt að koma í verk á einum degi?

Klúðraðu. Lærðu af því. Gerðu nýtt plan. (Endurtakist eftir þörfum).

Við leyfum þeim að leika sér of mikið í tölvunum/snjalltækjunum

Svo virðist sem margir foreldrar séu með krónískt samviskubit. Það er engin ein rétt leið til þess að ala upp börn. Þetta er þitt heimili, þín börn. Gerðu það sem þér finnst réttast fyrir þín börn og láttu ekki dómhörku annarra hafa áhrif á þínar ákvarðanir og forgangsröðun.

Börn voru beltislaus í aftursætum, borðuðu hvítan sykur fyrir framan sjónvarpið, hoppuðu fram af húsþökum og ofan í húsgrunna fulla af steypustyrktarjárni. Það rættist úr flestum þeirra. Þetta eru ekki kjöraðstæður en það er líklega ólíklegt að korteri lengri skjástund eða einn Dótu-þáttur í viðbót ríði baggamuninn um velferð þeirra til framtíðar. Þú þekkir þín börn best. Þú veist hvaða mörk þú þarft að setja og hver ekki. Ef þú ert að bugast af sektarkennd gerðu þá eitthvað í því. Ef ekki – haltu þínu striki og láttu ekki sakbíta þig (e. guilt-trip) í einhverja vitleysu.

Ég gefst upp og gef þeim það sem þau suða um því ég er of þreytt/ur til að þrátta

Hver hefur ekki átt slæman dag og verið algjörlega of búin/n á því til að taka slaginn um eitthvað sem barnið var tilbúið að suða/þrátta/væla um eða yfir. Við höfum öll lent harkalega á þeim vegg og ekki átt neitt í þessi „rifrildi“. Gefðu þér séns og makanum líka.

Ég leyfi þeim að sofa upp í … ég er of þreytt/ur

Þetta er svo algeng játning. Sérstaklega frá foreldrum sem eru að rembast við að fá börnin til að sofa í sínu eigin rúmi. Þið eruð veikust fyrir þegar þið eruð þreytt. Svefn-baráttan er langverst! Harkaðu af þér!

Ég vildi óska að það væri aldrei heimavinna úr skólanum

Einmitt! Hver hefur ekki tuldrað þetta ofan í hálsmálið og óskað þess að heimavinnan yrði afnumin með öllu. Vinnan sú getur ært bæði börn og foreldra.

Ég elska barnið mitt, en mér líkar ekkert sérstaklega vel við það akkúrat núna

Ekkert okkar er Móðir Theresa og hún hefur ábyggilega sínar eigin takmarkanir líka. Þú ert ekki róbóti. Þér er heimilt að vera ekki alfarið að fíla það skeið eða tímabil sem barnið þitt er að fara í gegnum það sinnið. Þið megið vera pirruð og örg út í börnin ykkar. Þið getið elskað börnin ykkar þó ykkur líki ekkert sérstaklega vel við þau á ákveðnum augnablikum í lífi ykkar.

Ég bara nýt þess ekki að ala upp börn

Komdu í klúbbinn. Þetta er erfitt. Það eru gerðar mjög óraunhæfar væntingar til uppeldis. Þetta byrjar á meðgöngunni og stigmagnast svo. Það er lítil manneskja að vaxa inn í þér – þú átt að „glóa“. Sumir „glóa“ bara ekki baun heldur verða bara grænir í framan.

Það rignir yfir okkur myndum, póstum og vísunum í fullkomna foreldra sem njóta lífsins með fullkomnu börnunum sínum. Ekki láta glepjast af þeirri tálsýn að við þurfum að njóta hverrar einustu stundar af uppeldisstarfinu. Það að missa úr svefn eða tapa þolinmæðinni er alls ekkert ánægjulegt og það er bara allt í lagi. Uppeldisstarfið er krefjandi, linnulaus áskorun. Hvað annað launalausa verkefni felur í sér 10-12 tíma vinnudaga í cirka 18 ár? Það verða klúður, mistök, misskilningar í uppeldinu. Það verða fýluköst og dramasprengjur á heimilinu. En það verður líka ást þarna inn á milli.

Þarft þú að játa eitthvað? Þekkir þú foreldra sem þurfa að staðfestningu þess að svona tilfinningar eru algengar og algjörlega OK? Deildu þessu með þeim☺

Byggt á grein frá Anxious Toddlers.com

Auglýsing

læk

Instagram